Fótbolti

Svekkjandi að fá ekki að spila gegn Fulham

Hjörvar Ólafsson skrifar
Birkir Bjarnason á æfingu með landsliðinu í gær.
Birkir Bjarnason á æfingu með landsliðinu í gær. vísir
Birkir Bjarnason mætti á sína fyrstu æfingu með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í undirbúningi liðsins fyrir HM í gær. Birkir lauk tímabili sínu með Aston Villa um síðustu helgi, en liðið tapaði þá fyrir Fulham í hreinum úrslitaleik um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Birkir sagði gott að koma hingað til Íslands, hitta strákana og komast frá vonbrigðunum sem umlykja Aston Villa-hluta Birmingham.

„Það er góð tilfinning að vera kominn heim eftir langt og strangt keppnistímabil með Aston Villa. Ég er hægt og rólega að jafna mig eftir vonbrigðin yfir að komast ekki upp í efstu deild með Aston Villa. Það var mjög svekkjandi að fá ekki tækifæri á að hafa áhrif á leikinn. Ég hefði viljað spila í þessum leik og reyna að hafa jákvæð áhrif á niðurstöðuna, en svona er þetta og ég er búinn að leggja þetta að baki mér. Nú er bara einbeitingin komin á fullt á íslenska landsliðið og HM,“ segir Birkir í samtali við Fréttablaðið.

Birkir glímdi við meiðsli í kálfa og baki í apríl og missti af nokkrum leikjum með Aston Villa, en hann segist vera laus við meiðslin núna.

Íslenska þjóðin þarf því ekki að bæta honum við á listann yfir þá leikmenn sem þeir hafa áhyggjur af þessa dagana, það er hvort þeir verði klárir í tæka tíð vegna meiðsla.

„Ég er bara fínn og alveg laus við þau meiðsli sem voru að plaga mig undir lok deildarkeppninnar úti. Ég var orðinn alveg leikfær í síðustu leikjum Aston Villa á tímabilinu og er bara í fínu standi þessa stundina. Mér líður vel í skrokknum og svo vex spennan með hverjum deginum fyrir stóru stundinni. Þetta er bara fyrsti dagurinn hjá mér í undirbúningnum og ég finn það strax hvað leikmenn og allir í kringum liðið eru spenntir,“ segir Birkir um andlegt og líkamlegt ástand sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×