Fótbolti

Gylfi Þór: Verð í toppstandi þegar HM byrjar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hóf leik á miðjunni í kvöld þegar íslenska landsliðið gerði 2-2 jafntefli við Ganverja í síðasta vináttuleiknum í undirbúningnum fyrir HM í Rússlandi.

Íslenska þjóðin hefur haft miklar áhyggjur af líkamlegri heilsu Gylfa Þórs enda hefur hann verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur. Hann er allur að koma til og kveðst sannfærður um að hann verði fullkomlega klár í slaginn þegar flautað verður til leiks í Rússlandi.

„Heilsan er mjög góð. Mér líður bara fínt. Ég er svolítið þreyttur en bara í fínum málum. Þetta var frekar hægur leikur en formið er ágætt. Ég næ að æfa í viku í viðbót og verð þá í toppstandi,“ sagði Gylfi eftir leikinn í kvöld.

Gylfi segir að mikill munur hafi verið á spilamennsku íslenska liðsins á milli hálfleika og telur það eiga sér eðlilegar skýringar.

„Það var mjög dauft yfir okkur í seinni hálfleik og allt mjög hægt. Menn voru kannski að halda aftur af sér; hræddir um tæklingar og meiðsli þegar það er svona stutt í mót. Við vorum fínir í fyrri hálfleik en langt frá okkar besta í síðari hálfleik.“

„Við spiluðum bara mjög vel í fyrri hálfleik. Við sköpuðum mikla hættu fram á við og leyfðum þeim mjög lítið. Við vorum þéttir til baka. Svo var þetta allt öðruvísi í síðari hálfleik,“

Íslenska liðið tapaði fyrir Noregi á dögunum en Gylfi segir undirbúninginn hafa gengið vel.

„Ganverjar eru betri tæknilega og eru sóknarsinnaðri. Þeir eru ekki jafn góðir varnarlega og þó þeir séu mjög sterkir líkamlega eru þeir ekki jafn harðir og Norðmenn. Þetta var fínn undirbúningur. Við náðum að spila á mörgum leikmönnum og margir fengu sénsinn. Ég held að það séu allir heilir svo þetta var bara fín vika,“ sagði Gylfi í viðtali við Arnar Björnsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×