Áfallið þegar nágrannar þeirra frá Úrúgvæ stálu sigrinum og heimsmeistaratitlinum og eyðilögðu sigurveisluna var svo mikið að það fékk viðurnafnið Maracanazo. Þetta eru ennþá, nú 68 árum seinna, ein allra óvæntustu úrslitin í sögu heimsmeistarakeppninnar.
Brasilíska landsliðið 1950 var frábært lið og örugglega eitt það allra besta sem náði ekki að vinna HM. Liðið var sem dæmi búið að skora þrettán mörk í tveimur fyrstu leikjum sínum í úrslitariðlinum þegar kom að lokaleiknum á móti Úrúgvæ.
Brasilíska þjóðin var þarna orðin hugfangin af fótboltanum og öll umfjöllun í aðdraganda lokaleiksins snérist frekar um hvernig Brasilíumenn ætluðu að fagna frekar en hvernig þeir ætluðu að vinna. Það þótti sjálfsagt að brasilíska liðið myndi vinna landslið Úrúgvæ.

Braslíska landsliðið var vissulega með besta liðið og hafði sýnt það og sannað í keppninni. Í fyrsta og eina skiptið fór ekki fram sérstakur úrslitaleikur heldur var spilaður úrslitaleikur. Eftir stórsigrana tvo í fyrstu tveimur leikjunum nægði Brasilíumönnum jafntefli í lokaleiknum. Úrúgvæmenn þurftu aftur á móti að vinna leikinn.
Eftir að Brasilíumenn komust í 1-0 og allt varð vitlaust meðal tvö hundruð þúsund áhorfenda héldu eflaust að von væri á enn einni markaveislunni en leikmenn Úrúgvæ tóku sér nægan tíma að byrja leikinn aftur og róuðu með því áhorfendaskarann. Þeir gerðu gott betur en að jafna metin því mörk frá Juan Alberto Schiaffino og Alcides Ghiggia sá til þess að það mátti heyra saumnál detta á velli þar sem tvö hundruð þúsund manns voru í stúkunni.
Það ótrúlega hafði gerst. Úrúgvæ vann og varð því heimsmeistari í annað sinn. Brasilíumenn klúðruðu þessu dauðafæri að verða heimsmeistarar í fyrsta sinn.

Enginn fór þó verr út úr þessum degi en brasilíski markvörðurinn Moacir Barbosa sem var gerður að blóraböggli í augum almennings. Barbosa var illa staðsettur í sigurmarki Úrúgvæ og það leit út fyrir að hann hafi reiknað með fyrirgjöf frá Alcides Ghiggia en ekki skoti.
Ghiggia talaði um stundina þegar hann þaggaði niður í tvö hundruð þúsund brasilískum áhorfendum. „Það hafa bara þrír menn fengið algjört hljóð á Maracana leikvanginum ... Sinatra, John-Paul páfi og ég,“ sagði Alcides Ghiggia mörgum árum seinna.
Við tók hálfrar aldar pína þar sem Barbosa losnaði aldrei við Maracanazo stimpilinn. Hann spilaði aldrei aftur fyrir brasilíska landsliðið og honum var aldrei fyrirgefið af brasilísku þjóðinni. Fólkið spýtti á hann og niðurlægði hann við hvert tækifæri. Lífið hans varð að algjörri martröð.

Brasilíumenn sáu Moacir Barbosa alla tíð sem óheillakráku og hann losnaði aldrei við smánarblettinn frá 1950. Hann mátti sem dæmi ekki koma á æfingu í brasilíska landsliðsins af ótta við það að hann færði liðinu ógæfu og þá bannað formaður brasilíska knattspyrnusambandsins honum að lýsa leikjum liðsins á HM.
Brasilíumönnum tókst loksins að vinna heimsmeistaratitilinn á HM í Svíþjóð átta árum síðar en þá var kominn í liðið hinn sautján ára gamli Pele. Brasilíumenn (og Pele) unnu HM alls þrisvar í næstu fjórum keppnum.

