Fótbolti

Braut eigin vinnureglu til að hjálpa Frederik að gleyma mistökunum

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Frederik Schram er kominn yfir mistökin segir Guðmundur.
Frederik Schram er kominn yfir mistökin segir Guðmundur. vísir/Vilhelm
Guðmundur Hreiðarsson, markvarðarþjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, var að vanda hinn hressasti eftir æfingu strákanna okkar í Kabardinka í dag.

Þetta var fyrsta æfingin liðsins eftir komuna til Rússlands en Guðmundur lét markverðina hafa fyrir hlutunum til að koma þeim aftur í gang eftir ferðalagið í gær.

„Strákarnir eru bara í topp standi. Það situr smá ferðaþreyta í okkur þrátt fyrir að ég hafi aldrei farið í eins þægilegt ferðalag sem er skrítið í ljósi þess hvar við erum. Þjónustan var frábær,“ segir Guðmundur.

Allir í vélinni fengu bestu meðferð hjá Icelandair. Maturinn var frábær en hægt var að velja á milli nautakjöts eða kjúklings. „Ég tók nautið. Það kom seint en það var rosalega vel þegið þegar að það kom,“ segir Guðmundur og hlær við, en hvað var uppleggið á æfingunni í dag?

„Við erum bara aðeins að vekja menn. Aðeins að fá fæturnar í gang og láta þá verja nokkur skot. Svo keyrum við hefðbundna rútínu í gang á morgun. Þá mætum við markverðirnir hálftíma fyrr.“

Hannes Þór Halldórsson ræðir við markverðina ásamt Guðmundi Hreiðarssyni.vísri/vilhelm

Tæmdu pokann

Guðmundur vill að markverðirnir séu ein heild. Þeir hafa verið í mikilli baráttu um sæti í goggunarröðinni undanfarnar vikur og því þurfti aðeins að funda í dag. Hannes Þór Halldórsson sá um það.

„Þegar að menn eru allir að stefna í sömu átt eru menn stundum með fulla poka af grjóti að reyna að sanna sig. Við sturtuðum úr þeim poka áðan. Það var Hannes sem átti frumkvæðið að því,“ segir Guðmundur.

„Við erum að peppa hvorn annan upp. Þetta snýst um að við séum allir saman og erum ein stór fjölskylda. Það var það sem að tókst á þessari æfingu. Maður sá bara hvað gerðist. Pokinn tæmdist og allir voru léttari á eftir. Við erum saman í þessu. Annað er ekki hægt,“ segir hann.

Frederik Schram gerði skelfileg mistök í vináttuleik á móti Noregi á dögunum sem kostuðu mark. Til þess að láta það ekki sitja of lengi í honum braut Guðmundur eigin vinnureglu.

„Ég hef yfirleitt þá vinnureglu að láta menn nánast í friði strax eftir leik og þangað til daginn eftir. Ég leyfi mönnum að melta hlutina. En, þegar að menn upplifa hlutina eins og hann gerði þarna þá vék ég aðeins frá reglunni,“ segir hann.

„Við vorum í sambandi tíu mínútur í tólf og ákváðum að afgreiða málið fyrir svefninn. Þá var hann búinn að taka til og fara yfir þetta eins og hann sá hlutina. Það var mjög gott. Við grófum þetta bara og sem betur fer kemur alltaf nýr dagur,“ segir Guðmundur Hreiðarsson.

Vísir verður með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×