Aðferðin leiðir auk þess til þess að sveiflur á húsnæðisverði hér á landi skila sér hraðar út í húsnæðislið vísitölu neysluverðs en sams konar sveiflur í Kanada og Svíþjóð, að því er fram kemur í úttekt greiningarfyrirtækisins Analytica, sem unnin var að beiðni nefndarinnar, en hagstofur í umræddum ríkjum taka ekki tillit til markaðsverðs húsnæðis með sama hætti og Hagstofa Íslands.
Hagstofa Íslands segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að ekki sé ljóst að samanburður á aðferðunum, þar sem ekki sé aðeins tekið tillit til fasteignavísitölu, heldur fleiri þátta, svo sem afskrifta og vaxta, sýni að sænska aðferðin mæli minni verðbreytingar yfir tímann en sú íslenska. Jafnframt sé ekki víst að slíkur saman burður sýni að sænska aðferðin henti betur en íslenska aðferðin. Ríflega fjórðung af vísitölu neysluverðs má rekja til húsnæðisverðs.
Í skýrslu nefndarinnar, sem Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, var í forsvari fyrir, er rakið að hagstofan hér á landi miði í sínum útreikningum á húsnæðiskostnaði við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal á verðbreytingum húsnæðisverðs en hagstofur í Kanada og Svíþjóð beiti flóknari aðferðum sem á síðustu árum hafi verið jafngildar því að tekin séu 25 og 30 ára hlaupandi meðaltöl af húsnæðisverði. Aðferð Hagstofu Íslands leiði þannig til þess að allar hreyfingar á húsnæðisverði séu „mjög fljótar að hlaupa inn í verðbólgumælingarnar“.

Í svari Hagstofu Íslands er bent á að í neysluverðsvísitölum sé miðað við að verðbreytingar séu mældar um leið og þær verða og í þeim efnum gildi það sama um húsnæðisverð og önnur verð í vísitölunni.
„Um leið og reynt er að jafna út verðbreytingarnar yfir lengra tímabil tapast þessi tengsl og ekkert samræmi verður lengur á milli þess sem mælt er og þess sem raunverulega er að gerast á fasteignamarkaði,“ segir í svarinu.
Nefndin tók í skýrslu sinni ekki afstöðu til þess hvaða aðferð hún telur að gæfi raunsönnustu myndina af húsnæðiskostnaði. Hún lagði þess í stað áherslu á mikilvægi sjálfstæðis Hagstofunnar og sagði skipta mestu máli að mæling á verðbólgu væri trúverðug.
Patrick Honohan, fyrrverandi seðlabankastjóri Írlands, og Athanasios Orphanides, fyrrverandi seðlabankastjóri Kýpur, sem nefndin fékk til þess að veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf í peningamálum, tóku fram í skýrslu sinni að aðferð Hagstofunnar væri mjög viðkvæm fyrir skammtímabreytingum á húsnæðisverði sem hlyti að skapa vanda við framfylgd verðbólgumarkmiðs. Þeir telja hins vegar að aðferðafræðin falli innan viðurkennds ramma við mat á húsnæðiskostnaði. Ein af helstu tillögum nefndarinnar var að verðbólgumarkmið skyldi undanskilið húsnæðisverði.