Skoðun

Madonna

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Madonna varð sextíu ára í gær. Ótrúlegt en satt. Eða ekki. Aldur er aldrei jafn afstæður og í tilfelli Madonnu enda er hún sannkölluð kvenmynd eilífðarinnar. Hún er náttúruafl, síkvik og margbreytileg.

Madonna hefur farið eins og óstöðvandi stórfljót í gegnum samtímann. Hún er aldrei eins og þarf aldrei að laga sig að breyttum heimi vegna þess að hún sjálf er hreyfiaflið. Tískustraumar og stefnur hafa engin áhrif á Madonnu vegna þess að hún gefur tóninn og við dönsum með.

Madonna hefur aldrei boðið upp á málamiðlanir. Hún gefst aldrei upp og fær alltaf sínu framgengt. Með þessu ægivaldi sínu hefur hún átt sviðsljósið í rúma þrjá áratugi. Alltaf fersk. Alltaf ný. Alltaf ögrandi. Hún er aldrei eins en er samt alltaf Madonna.

Madonna er mósaíkhelgimynd. Amerískt íkon sem hefur haft meiri áhrif á menninguna en Marilyn Monroe, Elvis og Coca-Cola. Hún er kyntákn, brautryðjandi, frelsishetja kvenna og múrbrjótur sem hefur rústað alls konar tabúum af sinni mögnuðu einurð og festu.

Madonna hefur alltaf ögrað. Í henni sameinast meyjan, móðirin, hóran og gyðjan þannig að eðlilega hefur hún heillað, hrætt, ógnað og kallað yfir sig mótmæli, fordæmingar og tilraunir til sniðgöngu og þöggunar. Allt auðvitað fánýtt og vonlaust brölt pappakassa og leiðindaliðs sem skelfur á beinunum andspænis sjálfstæðri, frjálsri, kynósa konu sem lætur ekkert stöðva sig.

Einhliða ástarsamband okkar Madonnu hófst fyrir 34 árum, þegar ég var þrettán ára. Dáleiddur af stúlkunni framan á Like A Virgin-plötuumslaginu. Ég elskaði hana þá og ég elska hana enn.

Heill þér, heilög Madonna!




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×