Þarlend samkeppnisyfirvöld blésu til rannsóknar í upphafi árs sem átti að leiða til lykta hvort eitthvað væri til í orðrómi þess efnis að fyrirtækin reyndu markvisst að draga úr afkastagetu eldri síma. Tilgátan var sú að með því að hægja stöðugt á símunum yrði það að lokum til þess að neytendur gæfust upp á gömlu, hægu símunum og skiptu þeim út fyrir nýrri týpur.
Rannsókn ítalskra samkeppnisyfirvalda renndi stoðum undir þessar getgátur: Tæknilegar uppfærslur, sem notendum símanna var oftar en ekki gert að innleiða, höfðu í mörgum tilfellum neikvæð áhrif á afkastagetu símanna. Þær, í stuttu máli, hægðu á þeim.
Í yfirlýsingu um málið, sem reifuð er á vef Guardian, segir jafnframt að Apple og Samsung hafi ekki gert viðskiptavinum sínum ljóst hvaða áhrif nýju uppfærslurnar gætu haft á símana. Þá hafi notendur símanna ekki getað losað sig við nýju uppfærslurnar og reitt sig áfram á eldri útgáfur stýrikerfanna, væru þeir ósáttir við breytingarnar.

Svipaða sögu mátti segja af Apple. Fyrirtækið gerði notendum iPhone 6 að ná sér í stýrikerfisuppfærslu sem hönnuð var fyrir iPhone 7. Útkoman var sambærileg og hjá Samsung-eigendum, eldri símarnir unnu löturhægt eftir innleiðingu uppfærslunnar.
Báðum fyrirtækjum var gert að greiða 5 milljóna evra sekt, upphæð sem nemur 683 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Þá þurfa Apple og Samsung einnig að greina frá úrskurði ítalskra samkeppnisyfirvalda á heimasíðum sínum.
Apple var jafnframt gert að greiða aðrar 5 milljón evrur í sekt, en ítalska samkeppniseftirlitið segir fyrirtækið ekki hafa gefið viðskiptavinum sínum „grunnupplýsingar“ um eðli, afkastagetu og endingartíma lithium-rafhlaða.
Neita að vilja draga úr endingartíma
Greint var frá því í lok síðasta árs að Apple hefði viðurkennt að hægja á eldri útgáfum síma sinna með hugbúnaðaruppfærslum. Fyrirtækið sagði að uppfærslurnar drægju vissulega úr afkastagetu símanna en þær gerðu símanna engu að síður öruggari og kæmu í veg fyrir vandamál sem oft vildu fylgja gömlum rafhlöðum. Apple neitaði þó að hægja markvisst á símunum til að draga úr líftíma vara sinna.Fyrirtækið baðst afsökunar og lækkaði þjónustugjaldið fyrir rafhlöðuskipti. Þar að auki voru upplýsingar um rafhlöðuna gerðar aðgengilegar í símanum og notendum bauðst að slökkva á eiginleikanum sem hægði á örgjörvanum. Apple mun í upphafi næsta árs mæta fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings og svara fyrir þessa iðju sína.
Samsung hefur fram til þessa sloppið nokkuð vel frá sambærilegri gagnrýni. Fyrirtækið sendi frá sér yfirlýsingu vegna ítölsku sektargreiðslunnar þar sem Samsung neitar að hafa hægt vísvitandi á eldri símum.