Fótbolti

Farðu í Adidas skóna þína eða við sektum þig um 139 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafinha.
Rafinha. Vísir/Getty
Rafael Alcantara do Nascimento, sem oftast er kallaður bara Rafinha, er leikmaður Barcelona og brasilíska landsliðsins. Hann vissi ekki betur en að samningur sinn við Adidas væri runninn út en góða gamla smáa letrið fór framhjá kappanum.

Rafinha hélt að samningur sinn við þýska íþróttavöruframleiðandann Adidas hafi runnið út í sumar og fór hann í framhaldinu að spila í Mizuno skóm.

Forráðamenn Adidas töldu á sér brotið og lögsóttu hann. Núna er staðan þannig að Rafinha þarf að fara í Adidas skóna sína eða hann verður sektaður um eina milljón evra sem eru rúmlega 139 milljónir íslenskra króna.





„Þó að hann sé ekki lögfræðingur þá ætti hann að vita um hvað styrktarsamningar snúast,“ sagði dómarinn áður en hann gaf fyrrnefndan úrskurð. Málið var tekið fyrir í dómstól í Amsterdam þar sem samningurinn var undirritaður.

Rafinha þarf að greiða tíu þúsund evrur fyrir hvern dag sem hann fylgir ekki umræddum samningi og sú upphæð getur mest farið upp í eina milljón evra. Rafinha þurfti einnig að borga fyrir allan lögfræðikostnað vegna málsins.

Hann slapp reyndar ágætlega því Adidas sóttist eftir því að Rafinha greiddi hundrað þúsund evrur fyrir hvern dag síðan 1. júlí þegar hann hætti að virða samning sinn.

Rafinha hefur verið óheppinn með meiðsli og sleit nýverið krossband í hné. Hann heldur því fram að hann hafi ekki fengið neinn stuðning frá Adidas í meiðslum sínum og að umrædd fimm ára endurnýjun á Adidas samingnum hafi verið falin í smáa letrinum í samningnum,.

Rafinha er 25 ára gamall og hefur verið hjá Barcelona alla sína tíð. Hann er yngri bróðir Thiago Alcantara sem lék einnig með Barcelona en er núna hjá Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×