Viðskipti erlent

Forseti Alþjóðabankans segir óvænt af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Afsögn Jim Yong Kim sem forseta Alþjóðabankans tekur gildi 1. febrúar.
Afsögn Jim Yong Kim sem forseta Alþjóðabankans tekur gildi 1. febrúar. Vísir/EPA
Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans, tilkynnti skyndilega í gær að hann ætlaði að stíga til hliðar og snúa aftur í einkageirann um mánaðamótin. Kim hefur gegnt embættinu í sex ár og kjörtímabil hans nær til ársins 2022.

Engin ástæða hefur verið gefin fyrir ákvörðun Kim önnur en að hann ætli nú að ráða sig til fyrirtækis og einbeita sér að fjárfestingum í innviðum í þróunarlöndum. Kim var endurkjörinn til fimm ára kjörtímabils árið 2017. Kristalina Georgieva, forstjóri bankans, tekur við stöðu hans tímabundið.

Forseti Alþjóðabankans er samkvæmt hefð tilnefndur af Bandaríkjastjórn. Kim, sem er Bandaríkjamaður af kóreskum ættum, var tilnefndur af Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Breska ríkisútvarpið segir að Kim hafi forðast að andæfa Donald Trump forseta opinberlega en þá greinir á um ýmislegt, ekki síst loftslagsmál. Í tíð Kim hefur Alþjóðabankinn hætt að lána fyrir kolaorkuverkefnum á sama tíma og Trump reynir að blása lífi í deyjandi kolaiðnað í Bandaríkjunum.

Alþjóðabankinn segir að hafist verði handar nú þegar til að finna varanlegan eftirmann Kim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×