Skoðun

Áramóta-hate

Haukur Örn Birgisson skrifar
Börnin mín tvö, sex og átta ára, rífast stöðugt. Og þá meina ég stöðugt! Og þau rífast um ekki neitt. Yfirleitt um það hver sagði hvað og við hvern það var sagt. Þegar ég spyr þau hvers vegna þau séu að rífast um svona ómerkilega hluti eða hvort þetta fráleita rifrildi þeirra muni koma til með að bæta líðan þeirra, þá er gjarnan fátt um svör. „Hann byrjaði“ eða „mér er alveg sama“ eru vinsæl svör á heimilinu. Það er kannski skiljanlegt, enda eru þau bara börn. „Ef þið hafið ekkert gott að segja um hvort annað, þá skuluð þið bara sleppa því að tala,“ segi ég við þau. Þau skilja það, að minnsta kosti næstu 10 mínúturnar.

Þessi forna viska virðist hafa fallið í gleymsku, ekki síst með tilkomu samfélagsmiðlanna. Móðgunargleðin, hneykslunarfíknin, opinbera smánunin og pólitíska rétthugsunin eru smátt og smátt að kæfa málefnalega og nauðsynlega umræðu. Fólk þorir ekki lengur að tjá sig af ótta við að verða fyrir reiðibylgju samfélagsmiðlanna, þar sem háværir hópar láta sverfa til stáls. Þótt hver og einn hópur sé gjarnan fámennur, þá eru hóparnir svo ótal margir og stutt er í að sá næsti móðgist og kveiki í sinni eigin galdrabrennu. Þannig gengur þetta koll af kolli og tilviljun ein virðist ráða því hver verður næst settur á bálið.

Nokkrir þingmenn sögðu ljóta hluti um annað fólk fyrir ekki svo löngu. Bálstjórarnir í kommentakerfunum notuðu enn þá ljótari orð til að lýsa reiði sinni á striga­kjöftunum, án þess að átta sig á tvískinnungnum. Þetta virðist vera orðin meginreglan. Á nýju ári væri gott ef við reyndum öll að temja okkur betri siði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×