Fótbolti

Messi hefur búið til jafnmörg mörk og allt lið Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Getty/Jeroen Meuwsen
Real Madrid hefur hvorki verið fugl né fiskur eftir að liðið sá á eftir Cristiano Ronaldo til Ítalíu og kæmist ekki í Meistaradeildina ef spænska tímabilið endaði í dag.

Barcelona er komið með tíu stigum meira en Real Madrid í spænsku deildinni en lítið hefur gengið hjá Evrópumeisturum Real Madrid á þessu tímabili og liðið tapaði sínum sjötta deildarleik í gær.

Real Madrid seldi Cristiano Ronaldo til Juventus fyrir tímabilið og Real hefur „aðeins“ skoraði 26 mörk í fyrstu átján deildarleikjum sínum sem þykir mjög lítið á þeim bænum.

Á síðustu leiktíð skoraði Real Madrid 2,5 mörk að meðaltali í leik í deildinni eða 94 mörk í 38 leikjum. Til að ná 94 mörkum á þessu tímabili þá þyrftu leikmenn Real að skora 68 mörk í síðustu tuttugu leikjunum eða 3,4 mörk í leik.

Real liðið hefur þannig skorað 24 mörkum færra en Barcelona liðið á leiktíðinni og þrjú önnur félög, Sevilla (31), Levante (30) og Celta de Vigo (28), hafa líka skorað meira en Real Madrid í deildinni.



Fróðlegast er þó að bera saman markaskor Real Madrid við tölurnar hans Lionel Messi.

Lionel Messi hefur nefnilega komið að 26 af 50 mörkum Barcelona með því annaðhvort að skora sjálfur (16 mörk) eða gefa stoðsendingu (10 stoðseningar). Messi hefur þannig búið til jafnmörg mörk og allt lið Real Madrid til samans.

Messi er með fjögurra marka forystu á listanum yfir markahæstu menn en næstur kemur liðsfélagi hans Luis Suárez. Markahæsti leikmaður Real Madrid í spænsku deildinni til þessa er Karim Benzem  með 7 mörk. Messi er líka með góða forystu á listanum yfir flestar stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×