Wall Street Journal hefur eftir heimildarmönnum sínum að nýi Razr-síminn verði snjallsími með tilheyrandi snertiskjá en þó verði haldið í „samþjappanlegar“ ræturnar. Þannig mun vera hægt að leggja símann saman upp á gamla mátann með hjálp nýjustu tækni.
Þá er því haldið fram að síminn verði fáanlegur strax í næsta mánuði og þurfa áhugasamir að reiða fram 1500 Bandaríkjadali, eða um 180 þúsund íslenskra króna, fyrir gripinn.
Razr-síminn, sem þótti örþunnur á þáverandi mælikvarða, kom fyrst á markað árið 2004 og varð fljótt vinsælasti farsími í heimi. Það breyttist hins vegar með tilkomu iPhone-símans árið 2007 og við tóku erfiðir tímar hjá Motorola. Google keypti fyrirtækið árið 2011 en seldi Lenovo svo símahluta starfseminnar þremur árum síðar.
Verizon vildi ekki tjá sig um orðróminn í samtali við Wall Street Journal og þá hefur ekkert heyrst frá Lenovo um málið. Hér að neðan má sjá myndband af unglingum, sem margir eru litlu eldri en upphaflegi Razr-síminn, spreyta sig á símanum og öðrum sambærilegum tegundum.