Handbolti

Aðgerð Gísla gekk vel sem verður þó frá í allt að sex mánuði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður Kiel í Þýskalandi, verður frá í allt að sex mánuði eftir að hafa gengist undir aðgerð á öxl eftir HM.

Gísli Þorgeir meiddist í úrslitaeinvíginu gegn ÍBV með FH í Olís-deild karla áður en hann fór til Kiel sumarið 2018. Meiðslin tóku sig upp á HM í janúar og þurfti hann í aðgerð eftir mótið.

„Aðgerðin gekk frábærlega að sögn lækna. Þetta var stærra en þeir héldu upphaflega en þeir sögðu að aðgerin hafi gengið vel,“ sagði Gísli í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég verð í fatla næstu þrjár til fjórar vikur og eftir það er þetta bara eitt skref í einu með stýringu sjúkraþjálfara. Vonandi verð ég tilbúinn að gera eitthvað almennilegt eftir þrjá mánuði en þetta verður skref fyrir skref.“

„Þetta tímabilið er úti og ég get hugsað það þannig að ég hef svo sumarið til þess að koma mér í gang fyrir næsta tímabil. Ég verð vonandi 100% klár fyrir næsta tímabil,“ bætti Gísli við.“

Gísli var afar frískur framan á HM en segir sjálfur að klókari varnarmennirnir hafi bakkað vel á hann enda hafi þeir séð að hann gæti ekki skotið utan af velli vegna axlarmeiðslanna.

„Það gekk ekki lengur að spila eins og ég var að gera. Það var hætta að þetta myndi breyta mér sem handboltamanni. Ég vil það auðvitað ekki og vil ekki missa það að geta skotið á markið.“

„Það sást þegar líða fór á HM að þeir sem voru klókari voru byrjaðir að bakka aðeins. Þeir sáu að ég get ekki skotið utan af velli og það gengur ekki. Ég reyni bara að gera það sem besta úr því sem komið er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×