Handbolti

Sjö íslensk mörk dugðu ekki til sigurs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gunnar Steinn Jónsson
Gunnar Steinn Jónsson vísir/getty
Rúnar Kárason og Gunnar Steinn Jónssno spiluðu báðir í tveggja marka tapi Ribe-Esbjerg fyrir Århus í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Leikurinn var fyrsti leikur beggja liða eftir jóla- og HM frí. Rúnar var fyrstur allra að ná sér eftir fríið og skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Ribe-Esbjerg.

Heimamenn í Århus tóku þó fljótt forystuna og voru þeir með yfirhöndina í fyrri hálfleik. Mestur varð munurinn 10-5 áður en gestirnir tóku áhlaup og var jafnt í hálfleik 11-11.

Leikurinn var mjög jafn í seinni hálfleik og munaði lengst af aðeins einu eða engu marki á liðunum. Þegar fjórar mínútur voru eftir náðu heimamenn að koma sér upp þriggja marka forskoti og það dugði til þess að tryggja sigurinn, lokatölur 25-23.

Rúnar skoraði fimm mörk í tíu skotum fyrir Ribe-Esbjerg. Gunnar Steinn setti tvö og lagði þar að auki upp tvö mörk fyrir félaga sína.

Arnar Birkir Hálfdánsson náði ekki að komast á blað í tapi Sönderjyske fyrir Skanderborg. Gestirnir frá Skanderborg unnu 26-20 sigur þar sem Cornelius Aastrup fór á kostum og skoraði 13 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×