Fótbolti

Mourinho hungraður í titla og gefur Real Madrid undir fótinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Snýr Jose Mourinho aftur til Real Madrid?
Snýr Jose Mourinho aftur til Real Madrid? vísir/getty
Jose Mourinho hefur verið orðaður við endurkomu til Real Madrid og hann fylgist vel með hverju skrefi hjá spænska stórveldinu.

Mourinho makar nú krókinn af því að ræða menn og málefni sem sérfræðingur hjá beIN Sports sjónvarpsstöðinni þar sem hann var í settinu alla helgina og greindi meðal annars stórleik Real Madrid og Barcelona á laugardag.

Mourinho var rekinn frá Manchester United í desember en margir knattspyrnuáhugamenn töldu Mourinho vera búinn að missa alla ástríðu fyrir leiknum. Svo er aldeilis ekki samkvæmt Portúgalanum.

„Ég er ungur af knattspyrnustjóra að vera. Ég er mjög ungur. Staðreyndin er sú að ég ef hef mikla löngun til að snúa aftur og sérstaklega þar sem ég hef ekki unnið bikar í 18 mánuði,“ segir Mourinho.

Nokkuð ljóst þykir að Santiago Solari verði ekki ráðinn sem knattspyrnustjóri Real Madrid í sumar og Mourinho gæti snúið aftur á Santiago Bernabeu en hann gerði liðið að spænskum meisturum árið 2012.

„Það er heiður að nafn mitt skuli nefnt í þeirri umræðu,“ segir Mourinho en hann hafði sitt að segja um frammistöðu Real Madrid í El Clasico.

„Það var ekki mikil gleði í þessari frammistöðu. Þetta var ekki frammistaða frá hamingjusömu liði. Þeir virtust ekki fullir sjálfstrausts og litu ekki út fyrir að hafa trú á að geta unnið Barcelona,“ segir Mourinho.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×