Skoðun

Bjölluat dauðans

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Haft er eftir Winston Church­ill að ekkert í lífinu sé jafn hressandi og að byssukúlan hitti ekki í mark þegar skotið er á mann. Óvitlaust þar sem lífið er aldrei dýrmætara en þegar dauðinn minnir á sig.

Held ég hafi fundið kjarnann í málshætti Churchills þegar ég greindist með krabbamein fyrir viku. Ég tók þessu að sjálfsögðu af æðruleysi enda var mér eiginlega alveg sama.

Þarna græddi ég loksins á þeim andlegu meinum sem hafa truflað tilveru mína; þunglyndi, kvíði, ógreindur athyglisbrestur og ofvirkur alkóhólismi hafa valdið því að öll mín fullorðinsár hef ég verið miklu hræddari við að lifa heldur en að deyja.

Þannig að þetta var ekki svo slæmt þegar dauðinn bankaði loksins upp á hjá mér. Þangað til ég þurfti að segja kærustunni minni og börnum mínum frá greiningunni og reyna að gera sem minnst úr þessu fyrir þá yngstu.

Þegar ég fann hvernig þetta ógeðslega orð „krabbamein“, hlaðið feigð, hafði meiri áhrif á fjölskyldu mína og vini áttaði ég mig á því að ég hef fyrir löngu týnt tilgangi lífsins í minni andlegu þoku.

Í staurblindri sjálfhverfu og sjálfsvorkunn hélt ég að líf mitt og lífsóhamingja snerust um mig þangað til að þessi óeiginlega kúla Churchills þaut fram hjá heilanum í mér og hvíslaði að tilgangur lífsins er að lifa því fyrir aðra.

Skjótvirkt og ótrúlega öflugt heilbrigðiskerfið okkar sem sækir styrk sinn fyrst og fremst til magnaðs starfsfólks bægði þessari kúlu frá mér og fátt bendir til þess að fleiri merktar mér séu á leiðinni.

Eftir stendur samt örlítið breyttur maður sem langar til að lifa og er hræddur við að deyja. Ágætis hrókering á taflborði lífsins sem kostaði aðeins eitt eista.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×