Skoðun

Kórverk

Kári Stefánsson skrifar
Vorið og fyrri partur sumars hafa verið erfiður tími hjá mér með tíðum ferðalögum og fyrirlestrum út um allan heim. Stundum hef ég ekki einu sinni vitað í hvaða landi ég var þegar ég vaknaði á morgnana og oftast fundist eins og eitthvað vantaði í mig umfram skrúfuna sem mér skilst að hafi losnað í æsku minni og týnst á unglingsárunum. Þetta gekk meira að segja svo langt að einn daginn þegar ég var nýkominn heim frá Bandaríkjunum hringdi ég í Týnt og Fundið á flugvelli í Los Angeles og spurði hvort þeir hefðu rekist á sálina mína sem ég væri hræddur um að hefði orðið eftir hjá þeim. Ég viðurkenni að þarna var ég að leggja aðeins of mikið á opinbera starfsmenn í erlendu ríki og auðvitað skelltu þeir á mig.

Ein afleiðing af þessum þvælingi var sú að ég varð illa haldinn af kvíða sem hélt mér vakandi á næturnar og gerði mig enn verri í umgengni en ella. En svo var ég allt í einu kominn á opnunartónleika miðsumarstónlistarhátíðar Víkings Heiðars að hlusta á píanótríó númer 2 í e-moll eftir Dmitri Shostakovich og kvíðinn hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég var minntur á tvennt, annars vegar hvernig góð tónlist getur getur hysjað mann upp úr holum og hrakið burtu kvíða og þunglyndi og hins vegar hvers konar gersemi við Íslendingar eigum í Víkingi Heiðari. Hann býr að þrenns konar hæfileikum sem eru hver fyrir sig svo langt umfram það sem við höfum nokkurn tímann áður átt. Í fyrsta lagi er hann einn af heimsins bestu píanóleikurum og sem slíkur algjörlega einstakur fyrir frumleika sakir. Hann gerir allt sem hann flytur að sínu.

Það er kannski full langt gengið að segja að nóturnar séu honum fyrst og fremst vísbending en stundum held ég að það sé satt. Hann er skapandi snillingur. Í annan stað er ég ekki viss um að það sé nokkur maður í þessum heimi sem er lagnara að tala um tónlist þannig að það sé bæði fræðandi og skemmtilegt. Í þriðja lagi býr hann að ótrúlegu tengslaneti í tónlistarheiminum og notar það til þess að flytja til Íslands tónlistarfólk af slíkum gæðum að það er með ólíkindum. Við verðum að hlúa að Víkingi Heiðari og sjá til þess að hann geti haldið áfram að gleðja okkur með miðsumarstónlistarhátíðum um eilífð alla. En akkúrat þarna á opnunartónleikunum hvarf kvíðinn minn og honum verður ekki boðið í heimsókn aftur. Það er fátt sem veldur meiri kvíða en þegar manni finnst vegið að möguleika hans til þess að stunda atvinnu sína og það er fátt sem býr til flóknari og óskiljanlegri viðbrögð en mikill kvíði. Mér fannst þetta hvort tveggja sjást í viðtali við tvo bæklunarskurðlækna í Morgunblaðinu fyrir tveimur vikum. Báðir vinna þeir í Orkuhúsinu, þar sem teymi lækna hefur sinnt sínu samfélagi með af burðum á síðustu tveimur áratugum.

Það hefur mætt þörf sem Landspítalinn hafði ekki sinnt meðal annars vegna þess að okkur Íslendingum hefur lengst af fundist það vilji guðanna að við höltrum svolítið ef liðþófi í öðru hnénu rifnar og að íþróttamenn setjist í helgan stein ef krossband í sama lið slitnar. Við höfum líka staðið í þeirri trú að við höfum verið sköpuð með tvær hendur til þess að við gætum greitt okkur með þeirri vinstri þegar slit í hægri öxl gera okkur ókleift að koma þeirri höndinni upp fyrir liðinn meidda. Snillingarnir í Orkuhúsinu hafa sýnt okkur fram á að við þurfum ekki að sætta okkur við þetta og hafa því ekki bara sinnt sjúklingum heldur líka breytt afstöðu okkar til okkar sjálfra. Þeir hafa gefið okkur ástæður til þess að gera kröfur um meiri gæði í því lífi sem við lifum. Það er afrek og fyrir það eigum við sem samfélag að vera þakklát. Ég er hins vegar ekki viss um að læknarnir í Orkuhúsinu geri sér grein fyrir því hvaða áhrif þeir hafa á íslenskt samfélag og séu þess vegna kvíðnari um framtíð sína en þeir hafa ástæðu til.

Það hefur sárlega vantað heildarstefnu í heilbrigðismálum á Íslandi í marga áratugi. Án slíkrar stefnu er erfitt að búa til aðferðir til þess að meta þörf á þjónustu vegna þess að enginn veit hvar hún yrði innt af hendi eða hversu mikla þjónustu á að veita. Svandís á mikið hrós skilið fyrir að setja saman þá tillögu að heildarstefnu sem hún lagði fyrir Alþingi. Þetta er hennar stefna og ber þess merki. Í henni leggur hún mikla áherslu á að markmiðið sé að hafa sem stærstan hluta heilbrigðisþjónustunnar rekinn af ríkinu og þar er ég henni sammála, vegna þess að þjónustan verður að vera samhæfð og markast af þörfum samfélagsins frekar en af markmiðum rekstraraðila. Það er hins vegar ljóst að innan þess ramma sem heildarstefnan veitir er pláss fyrir alls konar rekstrarform. Ég held að reyndin verði sú að ríkisrekstur þjónustunnar verði regla en einkaframtakið geti öðlast rétt til þess að reka hluta hennar og geti haldið honum með því að þjóna samfélaginu vel eins og Orkuhúsið hefur svo sannarlega gert.

Ég held að ein af aðalástæðum þess að Orkuhúsið hefur virkað vel sé að þar vinnur nægilega stór hópur lækna til þess mynda samfélag sem getur veitt hverjum einstökum þeirra það aðhald og þann stuðning sem menn þurfa nauðsynlega á að halda við það erfiða starf sem læknisþjónusta er. Það er ekki hægt að segja hið sama um margar af stofum sérfræðinganna úti í bæ þar sem menn hringla einir og eftirlitslausir og án stuðnings. Það veit aldrei á gott Þegar bæklunarskurðlæknarnir kvarta undan því að tillaga Svandísar að heildarstefnu í heilbrigðismálum hafi verið sett saman án þess að læknafélögin hafi verið með í ráðum ber að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi hafa læknafélögin gjarnan hagað sér eins og klassísk stéttarfélög en ekki fagfélög, með snöggtum minni áherslu á samfélagslega ábyrgð en hagsmuni félagsmanna.

Ég held að það hljóti að teljast slys, vegna þess að læknar á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið öðrum stéttum tryggari sínu samfélagi og dyggari. Hitt er svo að heildarstefnan er mjög víður rammi sem er nær því að vera pólitísk viljayfirlýsing en fagleg tillaga. Það er hins vegar hafið yfir allan vafa að það myndi þjóna hagsmunum íslensks samfélags að samtök lækna tækju ríkan þátt í því að fylla upp í rammann. Tillaga Svandísar að heildarskipulagi heilbrigðismála á Íslandi gerir ráð fyrir því að einkareknu stofurnar verði agaðar og þeim fundinn staður í heilbrigðiskerfinu og úthlutað verkefnum í samræmi við hann. Ég á bágt með að trúa því að læknarnir haldi að það sé betra fyrir þjóðina að hafa kerfið stjórnlaust. Stjórnleysið þjónar einungis þeim óprúttnu sem eru reiðubúnir til þess nýta sér möguleikann á að selja þjónustu sem engin þörf er fyrir en þeir eru fáir og kannski engir.

Heilbrigðiskerfið er samvinnuverkefni eins og hljómsveit eða kór. Svandís hefur lengi sungið í kór og er vön þeim málamiðlunum sem felast í því að ná fram góðri heild úr fjölda einstaklinga og þrátt fyrir allt er henni eiginlegt að sýna tillitsemi. Það tekur hana bara stundum svolítinn tíma að kæla skapið sem er henni eins og sumum okkar uppspretta orku. Mér finnst fallegt dæmi um það hvernig hún hugsar þegar hún hætti í kór þegar hún varð ráðherra af því að hún var hrædd um að nærvera yfirvaldsins myndi trufla jafnvægið í kórnum. Verkefnið er að smíða gott heilbrigðiskerfi og hver sem vill leggja af mörkum til þess á góðan félaga í Svandísi. Samtök lækna verða að byrja á því leiðrétta þann misskilning samfélagsins að þau hafi ekki áhuga á neinu öðru en launum félagsmanna. Ef það tekst má vel vera að þau verði fengin til þess að leiða verkefnið.

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×