Vélhöndin sem getur þetta er framleidd af Shadow Robot Company og er komin í almenna sölu. Getur höndin meðal annars handleikið egg án þess að brjóta það. Hugbúnaðurinn er forritaður af OpenAI, forritunarhúsi sem hefur meðal annars hannað gervigreind sem hefur betur en mannfólk í tölvuleiknum Dota 2.
Teymi OpenAI notaði tækni sem grundvallast á því að kenna vélhendinni með jákvæðri styrkingu. „Til að byrja með veit höndin ekki hvernig hún á að hreyfast eða hvernig kubburinn bregst við þegar það er ýtt við honum,“ segir Peter Welinder, einn rannsakenda í samtali við tímaritið New Scientist.

Notast var við jákvæða styrkingu með því að forrita höndina til að vilja stig og gefa hendinni stig í hvert skipti sem hún leysti nýtt verkefni á borð við að snúa kubbnum við. Gervigreind lærir mun hraðar en mannshugurinn, ef sama aðferð yrði notuð á manneskju myndi það taka rúmlega 13.000 ár.
Vélhöndin er ekki með nein augu þannig að notast er við þar til gerða nema í fingrunum. Gat hún svo lært af mistökum sínum, til dæmis ef hún sneri kubbnum of langt.
Welinder segir það allt velta á hversu ruglaður kubburinn er hversu lengi vélhöndin er að leysa þrautina. Besta tilraunin tók um þrjár mínútur. Næsta verkefni er að kenna hendinni að mála og brjóta saman pappír.