Karl, sem er yfirlæknir greiningarsviðs, segir í samtali við Vísi að hann hafi skilað inn uppsagnarbréfi sínu í morgun. „Það var hundfúlt. Ég er búinn að vera að herða mig upp í þetta. Maður er búinn að vinna hérna í sextán ár og hefur verið mjög góður vinnustaður, skemmtileg vinna og viðfangsefni,“ segir Karl.
Afskipti stjórnar SÍBS af rekstri Reykjalundar, og sviptingarnar sem orðið hafa í kjölfarið, hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Karl hefur nú óskað eftir að vinna samningsbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrest, af tillitssemi við sjúklinga og samstarfsfólk, og kveðst ekki bjartsýnn á að afturkalla uppsögnina. Hann hafi ekki séð neinn vilja hjá núverandi stjórnendum til að mynda sátt.

Karl segir nú stefna í alvarlega stöðu á Reykjalundi. Erfitt verði að manna stöðurnar sem sérfræðilæknarnir skilji eftir sig.
„Það segir sig sjálft að sú þjónusta sem Sjúkratryggingar hafa verið að kaupa af Reykjalundi er ekki sama varan, eða sama þjónustan, sem verður hér í boði. Þetta er ekki mjög stór hópur, sérmenntaðir endurhæfingarlæknar. Þetta er tiltölulega lítil sérgrein.“
Herdís Gunnarsdóttir forstjóri Reykjalundar segir að uppsagnir læknanna, sem eru nú alls orðnar sjö frá því ólgan kom upp, séu vissulega áhyggjuefni. Sjö stöðugildi séu þó enn þá mönnuð og nú blasi við að manna þurfi sex stöðugildi frá og með 1. febrúar.
„Þjónustan er algjörlega óskert, við erum að vinna ötullega að því að finna lausnir í mönnun, til skemmri og lengri tíma, og svo erum við sannarlega að leggja okkar af mörkum og bindum vonir við það að fólk endurskoði hug sinn,“ segir Herdís.