Fótbolti

Bæjarar fengu skell | Stórsigur Leipzig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Frankfurt fagna einu fimm marka sinna gegn Bayern.
Leikmenn Frankfurt fagna einu fimm marka sinna gegn Bayern. vísir/getty
Bayern München steinlá fyrir Eintracht Frankfurt, 5-1, í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Bæjarar eru í 4. sæti með 18 stig. Þetta er í fyrsta sinn í rúm tíu ár sem Bayern fær á sig fimm mörk í deildarleik.

Jerome Boateng, varnarmaður Bayern, var rekinn af velli strax á 9. mínútu fyrir brot á Goncalo Paciencia sem var sloppinn í gegn.

Filip Kostic og Djibril Sow komu Frankfurt í 2-0 áður en Robert Lewandowski minnkaði muninn í 2-1 á 37. mínútu. Lewandowski hefur skorað í öllum tíu leikjum Bayern í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

David Abraham, Martin Hinteregger og Paciencia skoruðu svo fyrir Frankfurt í seinni hálfleik og lokatölur 5-1, heimamönnum í vil. Frankfurt er í 6. sæti deildarinnar.

Borussia Dortmund varð fyrst liða til að vinna Wolfsburg í vetur. Lokatölur 3-0, Dortmund í vil.

Thorgan Hazard, Raphaël Guerreiro og Mario Götze (víti) skoruðu mörk Dortmund í upphafi seinni hálfleik. Dortmund er í 2. sæti deildarinnar með 19 stig, þremur stigum á eftir toppliði Borussia Mönchengladbach sem vann 1-2 útisigur á Bayer Leverkusen.

RB Leipzig kjöldró Mainz, 8-0, á heimavelli. Timo Werner skoraði þrjú mörk og gaf þrjár stoðsendingar fyrir Leipzig sem er í 3. sæti deildarinnar.

Þá gerðu Werder Bremen og Freiburg 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×