Fótbolti

Versta forsíða sem Solskjær hefur séð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Getty/John Peters
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var allt annað en sáttur með forsíðu ítalska blaðsins Corriere dello Sport á fimmtudaginn en hann var spurður út í hana á blaðamannafundi í dag.

Corriere dello Sport stillti þeim Romelu Lukaku og Chris Smalling upp á móti hvorum öðrum undir fyrirsögninni „Black Friday“ eða „Svartur föstudagur“. Lið þeirra Internazionale og Roma mætast í ítölsku deildinni í kvöld.





Romelu Lukaku og Chris Smalling spiluðu undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United í fyrra en United seldi Romelu Lukaku til Internazionale og lánaði Smalling til Roma.

Lukaku sagði fyrirsögnina vera eina þá heimskustu sem hann hafði séð og Smalling bað ritstjóra um að huga betur út í hversu mikil áhrif þeir hafa. Romelu Lukaku segir þetta dæmi um það að menn séu enn í dag að ýta undir rasisma og fordóma á Ítalíu.





„Sá ég blaðið. Vá. Í alvöru? Er þetta bara hægt í dag? Þetta er versta forsíða sem ég hef séð. Ég hef verið í sambandið við Chris til að láta hann vita af því að við stöndum með honum. Og með Romelu líka,“ sagði Solskjær.

Ítalir hafa verið í miklum vandræðum með kynþáttafordóma á fótboltaleikjum og hafa menn eins og Mario Balotelli þurft að finna það á eigin skinni. Svona blaðamennska er því ekki að hjálpa mönnum í baráttunni við að útrýma slíkum ósóma á forsíðu stærstu íþróttablaða landsins.

Corriere dello Sport hefur skiljanlega fengið mikla gagnrýni og þá hafa bæði Internazionale og Roma ákveðið að slíta öllum samskiptum við blaðamenn þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×