Fótbolti

Vilja fá Håland og Mbappé til að búa til nýja heilaga sóknarþrenningu á Santiago Bernabéu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erling Håland fagnar marki sínu fyrir Borussia Dortmund í 4-0 sigri á Schalke 04 um helgina.
Erling Håland fagnar marki sínu fyrir Borussia Dortmund í 4-0 sigri á Schalke 04 um helgina. getty/Martin Meissne

Real Madrid vill fá Erling Håland og Kylian Mbappé til að búa til nýtt drauma sóknartríó á Santiago Bernabéu ásamt Eden Hazard. Þessu var slegið upp á forsíðu AS í dag.

Real Madrid stefnir á að fá Håland og Mbappé til félagsins næsta sumar. Håland leikur með Borussia Dortmund og Mbappé með Paris Saint-Germain.

Með Hazard eiga þeir að mynda nýja heilaga sóknarþrenningu hjá Real Madrid í anda BBC-tríósins, þegar Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og Gareth Bale léku saman í framlínu spænska stórveldisins. Með þá þrjá í framlínunni vann Real Madrid Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum á fimm árum og einn Spánarmeistaratitil.

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, ætlar að nota Mbappé á hægri kantinum, Hazard á þeim vinstri og Håland fremstan.

Hazard kom til Real Madrid frá Chelsea fyrir síðasta tímabil en hefur lítið spilað með Madrídarliðinu vegna meiðsla.

Håland var á skotskónum fyrir Dortmund þegar keppni hófst aftur í þýsku úrvalsdeildinni um helgina. Norðmaðurinn gerði eitt marka Dortmund í 4-0 sigri á grönnunum í Schalke 04. Håland hefur skorað tólf mörk í þrettán leikjum fyrir Dortmund frá áramótum en hann kom til þýska liðsins frá Red Bull Salzburg í Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×