Fótbolti

Heimaliðin hörmuleg með enga í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonardo Bittencourt hjá Werde Bremen í baráttu við Florian Wirtz hjá Bayer Leverkusen en Werder Bremen var eitt af mörgum heimaliðum sem töpuðum um helgina.
Leonardo Bittencourt hjá Werde Bremen í baráttu við Florian Wirtz hjá Bayer Leverkusen en Werder Bremen var eitt af mörgum heimaliðum sem töpuðum um helgina. EPA-EFE/STUART FRANKLIN

Nýr veruleiki knattspyrnuliða úti í heimi er að spila leiki sína án áhorfenda og það virðist koma niður á heimaliðunum.

Heimavöllurinn á að vera vígi hvers fótboltaliðs en auðvitað spila stuðningsmenn liðanna þar stórt hlutverki. Mikilvægi stuðningsmanna heimaliðanna sést kannski á úrslitum úr þýsku Bundesligunni um helgina.

Heimaliðin unnu aðeins einn leik af níu í fyrstu umferð þýsku fótbolta deildarinnar eftir COVID-19 hléið.

Eina liðið sem vann sinn heimaleik var lið Borussia Dortmund en og félagar áttu ekki í miklum vandræðum með Schalke 04 og unnu öruggan 4-0 sigur.

Öll hin átta heimaliðin náðu aftur á móti aðeins að skora samtals sex mörk í sínum leikjum og ekkert þeirra fagnaði sigri. Uppskeran var aðeins þrjú stig af 24 mögulegum eða aðeins þrettán prósent stiga í boði.

Þess í stað unnu fimm útilið sína leiki en það voru Hertha Berlin, Wolfsburg, Borussia M'gladbach, Bayern München og Bayer Leverkusen. Útiliðin skoruðu alls sautján mörk gegn sex í þessum átta leikjum.

Úslit leikja í endurkomu þýsku deildarinnar um helgina:

  • Borussia Dortmund - Schalke 04 4-0
  • RB Leipzig - Freiburg 1-1
  • Hoffenheim - Hertha BSC 0-3
  • Fortuna Dusseldorf - Paderborn 0-0
  • Augsburg - Wolfsburg 1-2
  • Eintracht Frankfurt - Borussia M'gladbach 1-3
  • Köln - Mainz 05 2-2
  • Union Berlin - Bayern München 0-2
  • Werder Bremen - Bayer Leverkusen 1-4



Fleiri fréttir

Sjá meira


×