Forstjóri Southwest Airlines, stærsta lággjaldaflugfélags heims, býst við að Boeing 737 MAX-þoturnar verði aftur komnar í farþegaflug á síðasta fjórðungi þessa árs. Forstjórinn, Gary C. Kelly, sem jafnframt er stjórnarformaður, lýsti þessu yfir á aðalfundi félagsins á dögunum.
„Vinnan við að koma MAX-vélinni aftur í þjónustu heldur áfram og við erum vongóð um að hún verði farin að fljúga á fjórða ársfjórðungi,“ sagði forstjórinn jafnframt í myndskilaboðum sem hann sendi frá sér á föstudag.
„Þetta er frábær flugvél. Hún er sú hagkvæmasta þegar horft er til eldsneytiseyðslu og viðhaldskostnaðar og veitir viðskiptavinum okkar frábæra upplifun,“ sagði Gary Kelly, sem er einn áhrifamesti maður fluggeirans vestanhafs en Southwest er það félag sem flytur flesta farþega í innanlandsflugi í Bandaríkjunum.

Southwest Airlines, sem er með höfuðstöðvar í Dallas í Texas, á mest allra flugfélaga undir því að MAX-þoturnar fljúgi á ný. Það hefur bæði pantað flestar MAX-þotur, eða 280 eintök, og er einnig það félag sem komið var með flestar slíkar í rekstur, eða 34, þegar þær voru kyrrsettar í marsmánuði í fyrra, eftir tvö flugslys, sem kostuðu 346 manns lífið.
Southwest hefur líkt og Icelandair samið um og fengið greiddar skaðabætur frá Boeing vegna MAX-vélanna. Þannig fékk félagið 300 milljónir dollara frá Boeing á fyrsta fjórðungi þessa árs.
Southwest rekur raunar eingöngu Boeing 737-þotur og telur floti félagsins alls um 750 slíkar vélar, flestar af undirgerðunum 737-700 og 737-800. Það var með fyrstu flugfélögum heims til að taka Boeing 737 MAX í notkun haustið 2017.
Boeing-fyrirtækið staðfesti í vikunni að það hefði hafið framleiðslu MAX-vélanna á ný, eftir tímabundna stöðvun frá því í janúar, þrátt fyrir miklar afpantanir og fjöldauppsagnir starfsfólks.
Icelandair ferjaði flestar MAX-þotur sínar til geymslu á Spáni síðastliðið haust, en sagt var frá fyrsta ferjufluginu í þessari frétt Stöðvar 2:
Sjá einnig hér: Fjórar Boeing MAX-þotur Icelandair flognar til vetrarstöðvanna á Spáni