Innlent

Rann­sókn Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar hafin

Andri Eysteinsson skrifar
Starfsmenn HMS voru mættir á vettvang brunans í morgun
Starfsmenn HMS voru mættir á vettvang brunans í morgun Vísir/Einar

Rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar er hafin vegna brunans á Bræðraborgarstíg í gær sem varð þremur að bana en stofnunin rannsakar alltaf mál þegar mannskaði verður í eldsvoða.

Ekki er um að ræða sakamálarannsókn heldur beinist hún að slökkvistarfi og aðstæðum í húsinu. Skoðaðar verða teikningar hússins, sem eru mjög gamlar enda húsið frá 1906. Nýjustu teikningar af húsinu er þó frá aldamótum.

Um er að ræða sjálfstæða rannsókn sem er þó unnin í samstarfi við lögreglu og slökkvilið en vinna gæti tekið nokkra mánuði samkvæmt tilkynningu HMS.

Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins hefur verið boðaður til fundar, auk byggingafulltrúans í Reykjavík, við Hermann Jónasson forstjóra HMS til þess að fara yfir verkefni sem hafa verið í gangi varðandi eftirlit með aðstæðum fólks sem býr í atvinnuhúsnæði og öðru ósamþykktu og óviðunandi húsnæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×