Körfubolti

Haukur Helgi spilar á Spáni á næstu leiktíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukur Helgi í leik með íslenska landsliðinu.
Haukur Helgi í leik með íslenska landsliðinu. EPA/LUKAS SCHULZE

Hinn fjölhæfi Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur samið við spænska úrvalsdeildarfélagið Andorra til tveggja ára. Kemur hann til liðsins frá UNICS Kazan þar sem hann lék á síðustu leiktíð. 

Haukur er ekki eini landsliðsmaðurinn sem er á faraldsfæti en talið er að Martin Hermannsson sé á leið frá þýska liðinu Alba Berlín. Mögulega spila þeir félagar báðir á Spáni á næstu leiktíð.

Liðið Andorra er vissulega staðsett í smáríkinu Andorra. Liðið hefur leikið í spænsku úrvalsdeildinni frá árinu 2014 og endaði í 6. sæti af 18 þegar deildin var lögð af vegna kórónufaraldursins í mars á þessu ári.

Liðið endaði hins vegar í 9. til 10. sæti eftir úrslitakeppnina sem fram fór í júní.

Undanfarin þrjú ár hefur félagið tekið þátt í Evrópubikarnum (Euro Cup) og komst til að mynda alla leið í undanúrslit tímabilið 2018/2019 þar sem það beið lægri hlut gegn Martin og félögum í Alba Berlín.

Haukur ætti að vera kunnugur staðháttum í spænsku deildinni en hann lék í deildinni með Bàsquet Manresa, CB Breográn og Saski Baskonia frá 2011 til 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×