Erlent

Áður óséðir „bálkestir“ á nýjum nærmyndum af sólinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Nærmynd Solar Orbiter af sólinni sem var tekin 30. maí. Sjónaukinn sem var notaður við myndatökuna er næmur fyrir fjarútfjólubláu ljósi.
Nærmynd Solar Orbiter af sólinni sem var tekin 30. maí. Sjónaukinn sem var notaður við myndatökuna er næmur fyrir fjarútfjólubláu ljósi. Vísir/EPA

Fjöldi áður óséðra smárra sólblossa sem vísindamenn kalla „bálkesti“ kom í ljós á fyrstu nærmyndum geimfarsins Solar Orbiter af yfirborði sólarinnar sem voru birtar í dag. Bálkestirnir eru taldir geta haft áhrif á hitastig kórónu sólarinnar.

Myndirnar af yfirborði sólarinnar voru teknar úr um 77 milljón kílómetra fjarlægð, helmingi nær sólu en jörðin, 30. maí. Á þeim sjást litlir sólblossar, um milljón til þúsund milljónum sinnum minni en hefðbundnir sólblossar, sem eru sagðir líkjast bálköstum, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum. Sólblossar eru snögg orkulosun í lofthjúpi sólarinnar sem veldur mikilli birtuaukningu og sendir straum hlaðinna agna út í geim.

Ekki er ljóst hvort að bálkestirnir séu minni útgáfur af sólblossum eða hvort þeir verði til við aðra ferla í sólinni. Tilgátur eru engu að síður um að bálkestirnir eigi þátt í að hita upp kórónu sólarinnar. Kórónan er ysta efnislag sólarinnar og nær milljónir kílómetra út í geim. Það er vísindamönnum enn ráðgáta hvers vegna kórónan er margfalt heitari en yfirborð sólarinnar. Hún er meira en milljón gráðu heit en ljóshvolfið svonefnda um 5.600 gráðu heitt.

Solar Orbiter er samvinnuverkefni evrópsku og bandarísku geimvísindastofnananna. Geimfarinu var skotið á loft 10. febrúar en athuganir þess eiga meðal annars að afla nýrrar vitneskju um uppruna sólvindsins, straums hlaðinna agna sem sólin sendir frá sér og veldur segulljósum á jörðinni.

Einn af bálköstunum sem sjást á mynd Solar Orbiter merktur með ör. Neðst í vinstra horninu er hringur sem sýnir stærð jarðarinnar í samanburði.Solar Orbiter

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×