Innlent

Henti fötum fyrir hálfa milljón út um glugga verslunar til að nálgast síðar

Atli Ísleifsson skrifar
Konan sem um ræðir var í annarlegu ástandi.
Konan sem um ræðir var í annarlegu ástandi. Getty

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær konu vegna gruns um þjófnað eftir að hún bar föt upp á aðra hæð verslunar í miðborg Reykjavíkur og henti þeim út um glugga í þeim tilgangi að nálgast síðar.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að konan hafi verið í annarlegu ástandi og að verðmæti fatanna sem hún henti út hafi verið milli 400-500 þúsund krónur. Þá sé konan einnig grunuð um vörslu fíkniefna og sé hún nú vistuð í fangageymslu lögreglunnar.

Í skeyti lögreglu segir einnig frá því að ölvaður maður hafi verið handtekinn í byggingu á einkalíð í hverfi 105. Vildi hann ekki segja til nafns og yfirgefa svæðið.

Ógnaði fólk með stól

Þá hafi ofurölvi maður verið handtekinn við Ingólfstorg í miðborg Reykjavíkur. Var hann búinn að vera að ógna fólki með stól og ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Í Kópavogi þurfti lögregla að hafa afskipti af manni vegna brots á lögreglusamþykkt Kópavogs. Var hann áberandi ölvaður og að kasta af sér þvagi á almannafæri. Að sögn lögreglu viðurkenndi maðurinn brotið og baðst afsökunar á þessari háttsemi.

Loks segir að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af nokkrum einstaklingum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×