Jón Daði Böðvarsson og félagar í B-deilarliði Millwall töpuðu á heimavelli gegn Sheffield United í FA bikarnum í dag. Jóhann Berg Guðmundsson var hvergi sjáanlegur er Burnley tapaði á heimavelli gegn Norwich City. Þá stýrði Slaven Bilic lærisveinum sínum í West Bromwich Albion til sigurs gegn sínum gömlu lærisveinum í West Ham United. Öll úrslit dagsins má finna hér að neðan.
Jóhann Berg er byrjaður að æfa en Sean Dyche ákvað að geyma íslenska landsliðsmanninn utan hóps er liðið mætti Norwich City á Turf Moor í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í dag.
Eftir markalausan fyrri hálfleik komu þeir Grant Hanley og Josip Drmic gestunum í 2-0 áður en Erik Pieters minnkaði muninn þegar 17 mínútur voru til leiksloka.
Lauk leiknum með 2-1 sigri gestanna og Kanarífuglarnir því komnir í 5. umferð enska FA bikarsins.
Hjá Millwall og Sheffield United var einnig markalaust í fyrri hálfleik en Muhamed Besic og Oliver Norwood skoruðu fyrir gestina í síðari hálfleik og lauk leiknum með þægilegum 2-0 sigri gestanna frá Sheffield.
Jón Daði kom inn af varamannabekknum á 71. mínútu en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.
Á London vellinum gerði Slaven Bilic sínum gömlu lærisveinum í West Ham United mikinn grikk en lið hans West Bromwich Albion, sem situr á toppi B-deildarinnar um þessar mundir, vann 0-1 útisigur.
Eina mark leiksins skoraði Conor Townsend á 9. mínútu leiksins.
Þá gerði Newcastle United markalaust jafntefli við Oxford United á heimavelli sínum St. James´s Park.
This one goes to a replay.#NUFCpic.twitter.com/53Lj4PUugP
— Newcastle United FC (@NUFC) January 25, 2020
Klukkan 17:30 hefst leikur Chelsea og Hull City í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Öll úrslit dagsins
Burnley 1-2 Norwich City
Coventry City 0-0 Birmingham City
Millwall 0-2 Sheffield United
Newcastle United 0-0 Oxford United
Portsmouth 4-2 Barnsley
Reading 1-1 Cardiff City
Southampton 1-1 Tottenham Hotspur
West Ham United 0-1 West Bromwich Albion