Loðnubrestur hefur bein áhrif á 350 starfsmenn í Eyjum og er ígildi 60 ársverka. Tapaðar launatekjur í Vestmannaeyjum eru að minnsta kosti 1000 milljónir.
Þetta kemur fram í Eyjafréttum sem sagði af greiningu Hrafns Sævaldssonar sem Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum kynnti á fundi bæjarráðs í gær.
Tap útgerðarfyrirtækja 7.600 milljónir
Þar var farið yfir loðunbrest á vertíðinni 2019. Tekjutap útgerðarfyrirtækja er metið á um 7.600 milljónir. Tekjutap annar fyrirtækja er um 900 milljónir og Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn verða af um 160 milljónum króna.
„Ljóst er að áhrif loðnubrestsins 2019 hér í Eyjum eru mjög mikil á samfélagið allt ekki bara þá sem starfa í sjávarútvegi. Fyrirtæki og fólk í Eyjum hafa tekið þetta mikla högg vegna ársins 2019 en annar loðnubrestur er eitthvað sem yrði Vestmannaeyjum mjög erfitt,“ segir í Eyjafréttum en rúmlega 30 prósent veiðiheimilda á loðnu eru hjá fyrirtækjum í Eyjum.
Ríkið komi að málum
Máluð er upp dökk mynd af stöðu mála, afleiðingin sé ekki aðeins tekjutap samfélagsins alls heldur eru miklar líkur á að markaðir tapist verði loðnubrestur annað árið í röð.
„Loðnubrestur er alvarlegt mál fyrir samfélag eins Vestmannaeyjar og önnur sveitarfélög sem teysta á loðnu. Loðnubrestur er líka áhyggjuefni ríkisins sem er stærsti hagsmunaaðili loðnunnar. Við vonum svo sannarlega að það finnist loðna og gefinn verði út kvóti fyrir 2020,“ segir Íris á Facebooksíðu sinni en rætt var við Írisi í Bítinu nú í morgun um málið. (Sjá hér neðar.)
Telja Eyjamenn vert að stjórnvöld beiti sér fyrir auknum rannsóknum og loðnuleit. Komi til þess að ekki verði gefinn út loðnukvóti annað árið í röð hyggst bæjarráð óska eftir fundi með sjávarútvegsráðherra, sveitarstjórnaráðherra og fjármálaráðherra til að ræða mögulegar mótvægisaðgerðir við aflabresti.