Fótbolti

Pique sendir stjórn Barcelona pillu nokkrum dögum eftir nýjan samning

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gerard Pique, Lionel Messi.
Gerard Pique, Lionel Messi. vísir/Getty

Eldfimt ástand ríkir innan herbúða spænska stórveldisins Barcelona og einn reynslumesti leikmaður félagsins, Gerard Pique, gagnrýnir stjórn félagsins harkalega fyrir samskipti sín við aðalstjörnu félagsins, Lionel Messi í sumar.

Messi hefur látið í sér heyra og gagnrýnt stjórnarhætti í félaginu. Hann fékk algjörlega nóg í sumar og óskaði eftir því að fá að yfirgefa félagið. Þessi 33 ára gamli Argentínumaður, sem er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar, fékk þá ósk sína ekki uppfyllta og er enn leikmaður Barcelona í dag.

Pique, einnig 33 ára, gerði á dögunum nýjan þriggja ára samning við félagið en hann segir engu að síður skömm að því hvernig komið hafi verið fram við Messi í sumar.

„Ég spyr mig að því hvernig stendur á því að besti leikmaður til að spila leikinn og við höfum verið svo heppnir að njóta krafta hans, að hann vakni upp einn daginn og þurfi að senda fax af því að honum líður eins og það sé ekki hlustað á hann,“ segir Pique.

„Þetta er fáranlegt. Hvað er í gangi? Messi á allt skilið. Nýi völlurinn ætti að vera skírður eftir honum. Hann er táknmynd félagsins og við eigum að virða hann eftir því. Þetta fer virkilega í taugarnar á mér,“ segir Pique.

Þeir félagar verða í eldlínunni á Nývangi í dag þegar Barcelona fær Real Madrid í heimsókn í spænsku úrvalsdeildinni. Leikurinn í þráðbeinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 13:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×