Fótbolti

Andri Fannar fékk á­tján mínútur gegn Lazio, M-in tvö af­greiddu Dijon og Suarez á skotskónum

Anton Ingi Leifsson skrifar
PSG menn fagna í kvöld. Þægilegur sigur hjá þeim eftir erfiðan Evrópuleik í miðri viku er liðið tapaði á heimavelli fyrir Man. Utd.
PSG menn fagna í kvöld. Þægilegur sigur hjá þeim eftir erfiðan Evrópuleik í miðri viku er liðið tapaði á heimavelli fyrir Man. Utd. Xavier Laine/Getty Images

Andri Fannar Baldursson kom inn á sem varamaður á 72. mínútu er Bologna tapaði 2-1 fyrir Lazio á útivelli í ítalska boltanum.

Bologna skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu en það var svo dæmt af eftir skoðun í VAR. Staðan var markalaus í hálfleik en Luis Alberto kom Lazio yfir á 54. mínútu.

Þannig stóðu leikar allt þangað til á 76. mínútu er Ciro Immobile tvöfaldaði forystuna en í uppbótartíma minnkaði Lorenzo De Silvestri stöðuna. Þar við sat.

Bologna er einungis með þrjú stig eftir fyrstu fimm leikina en Lazio er í 10. sætinu með sjö stig.

PSG lenti ekki í neinum vandræðum með Dijon á heimavelli. Moise Kean, sem er á láni hjá PSG frá Everton, skoraði tvö fyrstu mörkin og Kylian Mbappe bætti við tveimur í síðari hálfleik.

PSG er með átján stig eftir átta leiki en Dijon er á botninum með tvö stig.

Atletico Madrid vann svo 2-0 sigur á Real Betis. Marcos Llorente kom Madrídingum yfir á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og Luis Suarez tvöfaldaði forystuna í uppbótartímanum.

Atletico er í 2. sætinu með ellefu stig, tveimur stigum á eftir grönnunum í Real en Atletico á leik til góða. Betis er í tíunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×