Mikael og VAR komu við sögu í jafntefli Liverpool í Danmörku | Atalanta áfram og PSG vann stórsigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markaskorarar kvöldsins voru þeir Mo Salah og Alexander Scholz.
Markaskorarar kvöldsins voru þeir Mo Salah og Alexander Scholz. Gaston Szermann/Getty Images

VAR kom mikið við sögu í 1-1 jafntefli Liverpool og Midtjylland í kvöld. Atalanta fór einnig áfram upp úr D-riðli og þá vann Paris Saint-Germain stórsigur á İstanbul Başakşehir í leik sem var frestað í gærkvöld.

Liverpool stillti upp mikið breyttu liði í kvöld og raunar var það þannig að þetta var yngsta byrjunarlið í sögu félagsins í Meistaradeild Evrópu. Þá var þetta fyrsti leikur Trent Alexander-Arnold sem fyrirliða liðsins.

Ef það var ekki nóg þá skoraði Egyptinn Mo Salah eftir aðeins 55 sekúndur og er það fljótasta mark Liverpool í sögu keppninnar. Ekki nóg með það heldur er Salah nú orðinn markahæsti leikmaður Liverpool í Meistaradeildinni. Hefur hann skorað 22 mörk alls.

Forysta Liverpool entist allt fram í síðari hálfleik en eftir rúmlega klukkustund var dæmd vítaspyrna á markvörð Liverpool, Caoimhin Kelleher.  Fékk hann gula spjaldið í kjölfarið.

Alexander Scholz fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi, var þetta annar leikurinn í röð sem danski miðvörðurinn skorar fyrir Midtjylland sem og fyrsta markið sem Kelleher fær á sig síðan hann kom inn í lið Liverpool á dögunum.

Takumi Minamino hélt hann hefði tryggt Liverpool sigurinn undir lok leiks en markið var dæmt af eftir að hafa verið skoðað af myndbandsdómara leiksins. 

Uppbótartíminn var litlar átta mínútur en allt kom fyrir ekki og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. Mikael Neville Anderson kom inn af varamannabekk Midtjylland á 64. mínútu.

Liverpool endaði með 13 stig á toppi D-riðils og er því komið í 16-liða úrslit.

Ítalska félagið Atalanta fylgir Liverpool upp úr riðlinum en liðið vann 1-0 útisigur á Ajax í hinum leik kvöldsins. Luis Muriel skoraði eina mark leiksins þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Skömmu áður hafði Ryan Gravenbach fengið sitt annað gula spjald í liði Ajax og þar með rautt.

Þá vann PSG öruggan 5-1 sigur á gestum sínum frá Tyrklandi í leiknum sem var frestað frá því í gær vegna kynþáttafordóma fjórða dómara leiksins. 

Neymar skorað tvívegis í fyrri hálfleik og Kylian Mbappé bætti við marki úr vítaspyrnu. Staðan 3-0 í hálfleik og í þeim síðari fullkomnaði Neymar þrennu sínu og Mbappé bætti við öðru marki sínu.

Mehmet Topal skoraði eina mark gestanna og lauk leiknum með 5-1 sigri PSG sem flýgur áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira