Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) segir að stofnunin hafi gefið heimsbyggðinni nægan tíma til að búa sig undir kórónuveirufaraldurinn. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert WHO að blóraböggli fyrir faraldrinum og sakað stofnunina um að hafa klúðrað viðbrögðum við honum.
WHO lýsti yfir alþjóðlegu heilbrigðisneyðarástandi vegna nýs afbrigðis kórónuveiru sem hafði komið upp í Kína 30. janúar. Þá höfðu aðeins 82 smit greinst utan Kína og enginn látist.
Tedros Ghebreyesus, forstjóri WHO, kom stofnuninni og viðbrögðum hennar til varnar á blaðamannafundi í dag og sagði hana ekki hafa sóað neinum tíma. Ríki heims hafi fengið nægan tíma til að bregðast við yfirvofandi faraldri.
.@WHO Director-General Tedros Adhanom Ghebreyesus gave a robust defence of his and the WHO s timely actions in declaring the new coronavirus an international emergency at the end of January https://t.co/wC8qTwQh9z https://t.co/bxwLCdDiia
— Reuters (@Reuters) May 1, 2020
Trump Bandaríkjaforseti lét stöðva fjárframlög Bandaríkjastjórnar til WHO í tvo mánuði. Hann hefur sakaða stofnunina um að vera handbendi stjórnvalda í Beijing og að hafa ekki varað önnur ríki við nógu hratt. Gagnrýnendur Trump segja að hann reyni að dreifa athyglinni frá seinum og lélegum viðbrögðum eigin ríkisstjórnar með því að ráðast á WHO.
Auk þess að stöðva fjárveitingar til WHO eru Trump og ráðgjafar hans sagði grafa undan stofnunni á bak við tjöldin. Trump hefur ennfremur kynt undir samsæriskenningar um að veiran hafi verið framleitt á tilraunastofu í Kína, þvert á álit bandarísku leyniþjónustunnar.
Michael Ryan, yfirmaður neyðarmála hjá WHO, segir stofnunina hafa heyrt ítrekað frá fjölda vísindamanna sem hafa rannsakað genamengi veirunnar sem fullvissi hana um að veiran eigi sér náttúrulegan uppruna.