Bogi Adolfsson formaður Þorbjarnar segir í samtali við Vísi að björgunarsveitarmenn á fjórhjólum hafi komið af fólkinu, þriggja manna hópi, í grennd við gosið. Fólkið, sem var á staðnum til að berja gosið augum, hafi verið illa búið og því hafi verið ákveðið að senda björgunarsveitarbíl eftir hópnum.
Bogi segir að fólkið hafi ekki verið komið nálægt gosinu. Það sé nær ómögulegt; afar torfært sé á svæðinu, bleyta í jarðvegi og hraun. Þá hafi verkefni kvöldsins gengið vel.
„Þetta er nú bara eitt samfellt útkall. En skipulagið virkaði, sem við erum búin að vera að undirbúa í ár. En þetta er að koma upp á besta stað,“ segir Bogi.
Þá segir hann að nú sé verið að skoða hversu margir þurfi að standa vaktina áfram í nótt.