Siðanefnd RÚV taldi Helga hafa brotið siðareglur með ummælum sínum um Samherja á samfélagsmiðlum í áliti vegna kvörtunar Samherja í síðustu viku. Tíu aðrir fréttamenn sem Samherji kvartaði undan voru ekki taldir hafa brotið siðareglur.
Helgi hefur meðal annars fjallað ítarlega um ásakanir um spillta viðskiptahætti útgerðarfyrirtækisins í Namibíu. Fyrirtækið greip til þess ráðs að framleiða myndbönd með ásökunum á hendur Helga og RÚV sem það greiddi fyrir að birta á samfélagsmiðlum í fyrra.
Stjórn RÚV greindi frá því í dag að hún ætlaði ekki að bregðast við kröfu Samherja um að Helga yrði meinað að fjalla frekar um fyrirtækið. Hún taldi það ekki á sínu verksviði að hlutast til um störf fréttamanna.
Í yfirlýsingu á vef RÚV segir Rakel fréttastjóri að stjórn opinbera hlutafélagsins hafi ekki getað komist að annarri niðurstöðu þar sem hún eigi enga aðkomu að ritstjórn. Umfjöllun Helga og fréttaskýringarþáttarins Kveiks standi.
Telur Rakel ómögulegt að slíta ummæli Helga sem voru talin stríða gegn siðareglum úr samhengi við það sem hún kallar „aðför eða herferð“ sem fulltrúar Samherja hafi skipulagt gegn frétta- og blaðamönnum sem hafa fjallað um málefni fyrirtækisins síðustu misseri.
„Aðför sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýna umræðu og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu. Að skjóta sendiboðann svo upplýsingar skili sér ekki til almennings,“ segir fréttastjórinn.
Vísar hún til myndbandanna sem Samherji lét vinna með ásökunum gegn fréttamönnum RÚV. Lýsir hún þeim sem kerfisbundinni atlögu fyrirtækis sem sé einsdæmi á Íslandi og grafalvarleg.
„Í persónulegum árásum stórfyrirtækja gegn einstaklingum felst ofbeldi sem ekki verður við unað. Það er ógerningur að slíta þau ummæli Helga, sem nefndin taldi brotleg, úr samhengi við þessa aðför,“ segir í yfirlýsingu Rakelar.