Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra hefur skipað starfshóp sem á að koma með tillögur um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadölum.
Nú þegar hefur verið gripið til bráðabirgðaaðgerða á svæðinu af hálfu Grindavíkurbæjar auk þess sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt fjármagn til uppbyggingar á svæðinu.
Í hópnum eru fulltrúar landeigendafélaganna tveggja á svæðinu, Grindavíkurbæjar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, lögreglu og Áfangastaðarstofu Reykjaness.
„Málið er brýnt það reynir á samstarf margra ólíkra aðila. Það reynir þarna á stýringu ferðamanna til skemmri og lengri tíma. Uppbyggingu, að öryggi sé tryggt og náttúruvernd. Þá liggur ábyrgðin á ýmsum stöðum,“ segir Þórdís.
Hún segir ekki ljóst hversu miklum fjármunum verði varið í verkefnið.
„Það liggur alls ekki fyrir á þessari stundu. Við höfum sett 10 milljónir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. En hvað fer í verkefnið í framhaldinu fer algjörlega eftir því hvers konar uppbygging mun fara þarna fram,“ segir Kolbrún.
Aðspurð um hvað hún telji að gjaldtaka verði tekin upp á svæðinu svara Kolbrún.
„Mér sýnist mjög ólíklegt að gjaldtaka verði tekin fyrir að ganga upp að gosinu. Það er allt annað að þarna verði greitt fyrir einhvers konar þjónustu sem verður veitt á svæðinu eins og bílastæði og salernisaðstöðu,“ segir Kolbrún.

Markaðsstofa Reykjaness hefur metið umfjöllun erlendra miðla um eldgosið og áætlar að virði hennar sé 6,6 milljarða króna þ.e. ef slík umfjöllun væri keypt.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri fer fyrir hópnum sem á að skila fyrstu tillögum eigi síðar en 30. apríl.
„Þessi áfangastaður verður mjög vinsæll og hvetur til Íslandsferða. Við sjáum nú þegar hversu stór hluti Íslendinga hefur nú þegar séð eldgosið og búast má við sambærilegum áhuga þegar ferðamenn byrja að koma hingað á ný í einhverjum mæli,“ segir Skarphéðinn.
Hann segir að hópnum sé ætlað að samræma aðgerðir þeirra sem koma að uppbyggingu, upplýsingamiðlun og rekstri á svæðinu.
„Þetta er land í einkaeign, þannig að eigendur svæðisins hafa mikið um það að segja hvernig framtíðarskipulag verður þarna. En það er líka samfélagið þarna og við sem ferðamannaland sem þurfum að ákveða hvernig við gerum þetta með sem bestum hætti,“ segir Skarphéðinn að lokum.