Katherine Tai, sendiherra Bandaríkjanna hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, tilkynnti þessa ákvörðun í kvöld. Undanfarna daga hafa staðið yfir viðræður innan veggja stofnunarinnar um það að fella niður viðskiptareglur til að auka framleiðslu bóluefna.
Í tilkynningunni segir hún að frekari viðræður þurfi að eiga sér stað og þær gæti tekið einhvern tíma, áður en önnur ríki geti farið að framleiða bóluefnin. Viðræðurnar hafa snúist um að fella tímabundið niður einkaleyfi á bóluefnum svo hægt væri að framleiða meira af þeim á heimsvísu.
AP fréttaveitan segir að til standi að funda aftur um málið í byrjun júní.
Tai sagði faraldur Covid-19 vera hnattrænt neyðarástand og það fordæmalausa ástand sem hefði myndast í heiminum, kallaði á fordæmalausar aðgerðir.
These extraordinary times and circumstances of call for extraordinary measures.
— Ambassador Katherine Tai (@AmbassadorTai) May 5, 2021
The US supports the waiver of IP protections on COVID-19 vaccines to help end the pandemic and we ll actively participate in @WTO negotiations to make that happen. pic.twitter.com/96ERlboZS8
Meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við það að fella niður einkaleyfi á bóluefnum eru Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Hann hefur meðal annars bent á að tólin til tímabundinnar niðurfellingar eru í verkfærakistu WTO og ekki sé betri tími til að beita þeim tólum en nú. Gegn heimsfaraldri sem hafi leitt til minnst 3,2 milljóna dauðsfalla og smitað 437 milljónir manna.
Leiðtogar rúmlega hundrað ríkja hafa lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir.
Andstæðingar þeirra segja málið flóknara en fólk átti sig á. Framleiðsla bóluefna sé flókin og hún aukist ekki af sjálfu sér við það að fella niður einkaleyfi á bóluefnum. Þá óttast þeir að aðgerðirnar muni koma niður á nýsköpun í framtíðinni.