Fótbolti

Juventus gæti verið rekið úr ítölsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo er með samning við Juventus út næsta tímabil eða til 30. júní 2022.
Cristiano Ronaldo er með samning við Juventus út næsta tímabil eða til 30. júní 2022. AP/Luca Bruno

Það er mikil pressa á Juventus að félagið dragi sig út úr Ofurdeildinni sem ítalska félagið hefur ekki ennþá gert.

Nýjasta útspil ítalska knattspyrnusambandsins er að hóta Juventus því að félagið gæti verið rekið út úr ítölsku deildinni ef þeir verða áfram hluti af Ofurdeildarsamkomlaginu.

Juventus er eitt af þremur félögum sem hefur ekki gefið Ofurdeildina upp á bátinn en hin eru spænsku félögin Barcelona og Real Madrid. Hin níu félögin sem stofnuðu Ofurdeildina fyrir tæpum mánuði, þar á meðal öll sex ensku félögin, hafa hætt við þátttöku í Ofurdeildinni.

Gabriele Gravina, forseti ítalska sambandsins talaði ekki undir rós: „Ef Juventus virðir ekki reglurnar þá verður félaginu sparkað úr deildinni,“ sagði Gravina. Hann hélt áfram.

„Ef Juventus verður ekki búið að draga sig út úr Ofurdeildinni þegar félagið skráir sig inn fyrir næsta tímabil í Seríu A þá mun félagið ekki fá keppnisleyfi hjá okkur,“ sagði Gravina.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur einnig hótað þessum þremur félögum sem lifa enn í þeim draumaheimi að Ofurdeildin geti orðið að veruleika.

„Við erum orðin þreytt á þessu stríði milli UEFA og þessara þriggja félaga. Ég vona að þessi deila verði leyst eins fljót og mögulegt er. Ég vonast líka til að geta miðlað málum á milli Juventus og UEFA,“ sagði Gravina.

„Það er alveg á hreinu að félög mega ekki taka þátt í okkar deild ef þau fylgja ekki þeim lögmálum sem UEFA ákveður. Það er ekki gott fyrir alþjóðlegan fótbolta, ekki gott fyrir ítalskan fótbolta og ekki gott fyrir Juventus. Við höfum þegar sagt að okkar knattspyrnusamband mun fylgja reglunum,“ sagði Gabriele Gravina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×