Forsvarsmenn hers Kína sögðu siglingarnar vera ólöglegar og herinn hefði fylgt tundurspillinum USS Curtis Wilbur eftir þegar því var siglt við Paracel-eyjar og rekið það á brott.
Þar að auki sögðu Kínverjar að siglingin væri ófagmannleg og óábyrg og hét herinn því að verja fullveldi Kína og tryggja frið og stöðugleika í Suður-Kínahafi, miðað við það sem haft er eftir hernum í frétt AP fréttaveitunnar.
Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs. Þar hafa þeir byggt upp heilu eyjarnar, flugvelli og flotastöðvar og komið eldflaugum þar fyrir. Auk Kína gera Víetnam, Filippseyjar, Brúnei, Malasía, Indónesía og Taívan tilkall til svæðisins. Rík fiskimið eru í Suður-Kínahafi og talið er að þar sé einnig að finna auðlindir eins og olíu. Þar að auki liggja mikilvægar siglingaleiðir um svæðið.
Bandaríkin hafa haldið siglingum sínum um svæðið áfram í mótmælaskyni við tilkall Kína og til að tryggja frjálsar siglingar um svæðið. Ráðamenn í Kína hafa reglulega fordæmt þessar siglingar og sagt þær ógna friði á svæðinu.
Kínverjar gera einnig tilkall til Taívans og hafa verið að beita ríkið sífellt meiri þrýstingi að undanförnu og eru í raun sagðir beita Taívan óhefðbundnum hernaði.
Forsvarsmenn sjöunda flota Bandaríkjanna, sem USS Curtis Wilbur tilheyrir, birtu í morgun langt svar við yfirlýsingu Kínverja þar sem segir að sigling tundurspillisins hafi verið í takt við alþjóðalög. Það séu hafsvæðiskröfur Kína sem séu ólöglegar og þær ógni frelsi hafsins, siglingum, viðskiptum og öðrum þjóðum við Suður-Kínahaf.
Þar segir að Kína, Taívan og Víetnam geri tilkall til Paracel-eyja og allir krefjist þess að þeir séu beiðnir um leyfi eða séu látnir vita af siglingum herskipa um svæðið. Það sé ekki í samræmi við alþjóðalög þar sem hverjum er frjálst að sigla friðsamlega um heimsins höf. Jafnvel herskipum.
Þá þvertaka forsvarsmenn flotans fyrir að USS Curtis Wilbur hafi verið rekið á brott af Kínverjum.