Í aðdraganda brotthvarfs síns af þingi hefur Páll verið gagnrýninn á stöðu flokksins, meðal annars með grein sem hann skrifaði í sumar um slakt fylgið og nú síðast í viðtali við Fréttablaðið.
Páll segir við Fréttablaðið: „Hollusta við formann má ekki breytast í meðvirkni, því þá er hún skaðleg. Sjálfstæðismenn hljóta að ræða hvort það sé fullreynt að ná árangri með núverandi formanni og forystu.“
Í grein sinni í sumar benti Páll á að undir forystu Geirs Hallgrímssonar og Davíðs Oddssonar hafi meðtalsfylgið verið í kringum 37% en frá því að Bjarni Benediktsson hafi tekið við keflinu hafi það verið í kringum 26%.
„Stundum finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn nokkurs konar framkvæmdastjóri Íslands. Hann hefur verið lengi í ríkisstjórn og formaðurinn lengi í fjármálaráðuneytinu,“ segir Páll í viðtali við Fréttablaðið. Þetta orsaki það að hugsjónir og raunveruleg stjórnmál víki fyrir skriffinnsku og embættisræði.
„Í Sjálfstæðisflokknum hefur skapast andrými fyrir þá skoðun að þú sért að bregðast flokknum með því að gagnrýna forystuna,“ segir Páll. „Ég vil hins vegar meina að þú sért að bregðast með því að gera það ekki þegar þörf er á, eins og nú er.“
Aðrir þættir en lýðræðislegt umboð veiti mönnum ráðuneyti
Í viðtalinu berst talið einnig að undrun Páls á að hafa ekki verið boðið ráðuneyti við myndun síðustu ríkisstjórnar þrátt fyrir að hafa leitt listann í stóru kjördæmi.
„Á þessum fimm árum áttaði ég mig hins vegar á því að ég hefði ekkert þurft að verða svona hissa. Ég kom utan frá í pólitíkina án þess að eiga mér neitt bakland eða sögu í flokknum. Það getur verið býsna torsótt inni í Sjálfstæðisflokknum. Þegar kemur að ráðuneytum skiptir það ekki endilega mestu máli að hafa sem sterkast lýðræðislegt umboð, heldur ráða aðrir þættir meiru um það.“