Skoðun

Komdu út að hjóla...

Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Í borginni eru margir staðir til að næra sál og líkama. Mörgum finnst gott að ganga, finna lyktina af náttúrunni og njóta útsýnis. Öðrum finnst skemmtilegra að hjóla, vera í síbreytilegu umhverfi innan borgarmarkanna, hjóla meðfram sjónum með vindinn í fangið, upplifa sólsetur með sjávarlykt eða horfa á borgina vakna í hversdagsleikann í upphafi vinnuviku. Fyrir hálfu ári byrjaði ég að hjóla um á rafmagnshjóli, til vinnu, innan hverfis með börnum á leið til tómstunda, viðra fjölskylduna og hjóla til heilsubótar. Á þessu hálfa ári er búið að hjóla rúma 800 kílómetra sem annars hefðu alla jafna verið eknir á bíl. Vegalengdin kemur óvart enda stutt tímabil að ræða og ég venjuleg kona í Breiðholti en ekki afrekskona í íþróttum sem tók ákvörðun um að vilja ferðast á öðru en bíl þegar þess var kostur.

40% vilja ferðast á öðru en bíl til vinnu

Í ferðavenjukönnun sem Reykjavíkurborg fékk Maskínu til að gera voru lagðar fram tvær spurningar. Hvernig ferðast þú oftast til og frá vinnu? Hvernig værir þú helst til að ferðast í vinnuna? Samkvæmt könnuninni ferðast 74,7% til vinnu á einkabíl sem bílstjórar. Þegar sami hópur svarar því hvernig hann helst vildi helst ferðast til vinnu sögðust aðeins 46,3% velja það að fara akandi sem bílstjóri til vinnu sem fyrsta val. Það þýðir að um 40% þeirra sem aka til vinnu í dag hefðu viljað velja aðra samgöngumáta. Innan við helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem segist myndi velja einkabílinn sem fyrsta valkost, eða 46% á höfuðborgarsvæðinu og ef tölur eru rýndar nánar sést að hlutfallið er enn lægra meðal Reykvíkinga eða 44,8%.

Áframhaldandi uppbygging innviða

Á síðustu tíu árum hefur orðið umbreyting á ferðavenjum borgarbúa eftir mikla uppbyggingu á innviðum hjólastíga. Á síðasta kjörtímabili var tekin pólitísk ákvörðun í ráðhúsinu, undir forystu Samfylkingar, að forgangsraða fjármunum í hjólreiðainnviði fyrir fjölbreytta vistvæna ferðamáta fyrst með hjólreiðaáætlun 2015-2020 og svo var samþykkt ný hjólreiðaáætlun 2021-2025 í sumar. Mun áframhaldandi uppbygging hjólastíga í borginni verða tryggð í samþykktu aðalskipulagi borgarinnar.

Einn dagur í viku verða fljótt tveir

Til þessara 40% íbúa höfuðborgarsvæðisins sem aka til vinnu en vildu ferðast til vinnu á öðrum fararskjótum en einkabílnum vil ég segja „Komið út að hjóla“. Byrjið rólega, takið einn dag í viku sem fljótlega verða að tveimur. Ég þekki það á eigin skinni. Það er góð tilfinning að skilja fjölskyldubílinn eftir heima og fimm manna fjölskylda hjólar inn í hversdaginn. Vinnustaðir, stofnanir og atvinnurekendur - hyglið ykkar fólki sem velur aðrar leiðir en einkabílinn, skapið umgjörð á vinnustaðnum þannig að starfsfólk geti geymt hjólin á öruggum og þurrum stað. Við erum öll í sama liðinu enda ávinningurinn mikill, betri loftgæði, minni útblástur, fjármunir sparast, ferðatími nýttur til hreyfingar og við verðum mikilvægar fyrirmyndir fyrir komandi kynslóð.

Sjáumst á hjólandi glöð

Höfundur er hjólari, varaborgarfulltrúi Samfylkingar, Breiðhyltingur og móðir þriggja hjólandi barna.




Skoðun

Sjá meira


×