Fótbolti

Juventus í fallsæti og fær alltaf á sig mark

Sindri Sverrisson skrifar
Paulo Dybala og félagar eru í tómu veseni.
Paulo Dybala og félagar eru í tómu veseni. Getty/Nderim Kaceli

Það er ýmislegt sögulegt að eiga sér stað hjá ítalska stórveldinu Juventus. Allt á mjög slæman hátt.

Juventus hefur, á sinn mælikvarða, byrjað leiktíðina á Ítalíu skelfilega og er í fallsæti eftir fjórar umferðir, með tvö stig.

Það hefur þrisvar sinnum gerst í sögu félagsins að Juventus vinni ekki neinn af fyrstu fjórum deildarleikjum sínum – síðast árið 1960.

Samt hefur Juventus komist yfir í þremur leikjanna; 2-0 gegn Udinese, 1-0 gegn Napoli og 1-0 gegn AC Milan í gær, en alltaf misst niður forskotið og jafnvel tapað.

Þrátt fyrir endurkomu þjálfarans Massimiliano Allegri, sem vann ítalska meistaratitilinn öll fimm árin sín hjá félaginu, 2014-2019, þá hefur varnarleikurinn verið vandamál, frekar en brottför Cristianos Ronaldo. Það er framhald af lokum síðasta tímabils og hefur Juventus nú fengið á sig mark í hverjum einasta af síðustu átján leikjum sínum.

Juventus er raunar að ganga í gegnum lengstu hrinu leikja án þess að halda markinu hreinu, af öllum liðunum í fimm bestu deildum Evrópu. Og það með Evrópumeistaramiðvarðaparið Giorgio Chiellini og Leonardo Bonucci í hjarta varnarinnar, og hollenska landsliðsmiðvörðinn Matthijs de Ligt einnig til taks. 

Allegri tók þó skýrt fram eftir jafnteflið við Milan í gær að þeir Chiellini og Bonucci hefðu átt frábæran leik og að sökin væri ekki þeirra.

Juventus mætir næst Spezia á miðvikudagskvöld og freistar þess að byrja að rétta úr kútnum en liðið er átta stigum á eftir toppliðunum tveimur frá Mílanó. Napoli getur náð tveggja stiga forystu á toppnum í kvöld með sigri á Udinese.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×