Fótbolti

Lazio biður Amazon Prime að klippa út senu í Maradona þáttunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona í leik með ítalska félaginu Napoli. Hann lék með liðinu frá 1984 til 1991.
Diego Maradona í leik með ítalska félaginu Napoli. Hann lék með liðinu frá 1984 til 1991. Peter Robinson/EMPICS/Getty

Amazon Prime er að framleiða heimildaþætti um líf Diego Armando Maradona og heita þeir „Maradona: Blessed Dream“ en það er ein sena sem forráðamenn ítalska félagsins Lazio eru mjög ósáttir með.

Í umræddri senu þá er ítalska félagið stimplað sem fasistar og forráðamenn Lazio vilja að framleiðendurnir taki hana út.

Diego Maradona er þarna að tala um Lazio og segir: „Þessir fasistar vilja niðurlægja okkur“ en Maradona var vanur að láta allt flakka í viðtölum.

Lazio setti yfirlýsingu inn á heimasíðu sína og rökstuddi mótmæli sín.

„Þetta fasistatal særir enn meira af því að því var ætlað að vera ærumeiðandi,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Með þessu ná þeir ótrúlegum árangri að móðga heilan stuðningsmannahóp og félag með því að segja eitthvað sem er svo fjarri veruleikanum. Þeir gera Maradona sjálfum líka engan greiða með því en hann sýndi það margoft að hann var vinur Lazio,“ segir í yfirlýsingunni.

Lazio bað því Amazon Prime um að taka senuna út sem er jafn ósönn og hún er særandi að þeirra mati. „Hún skortir ekki aðeins virðingu fyrir Lazio heldur skítur hún einnig út minningu mikils meistara,“ segir í yfirlýsingunni.

Hluti stuðningsmannahóps Lazio hefur sterk tengsl við hægri öfgahópa. Félagið var meðal annars sektað af UEFA og þurft að spila einn leik án áhorfanda í október 2019 eftir að hópur stuðningsmanna félagsins sáust gera fasistakveðju á Evrópudeildarleik á móti Rennes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×