Tvær fjarreikistjörnur fundust á braut um stjörnuna HD 3167 árið 2016 og ári síðar fannst sú þriðja. Þær eru taldar svonefndar ofurjarðir og er stærð þeirra á milli jarðarinnar og Neptúnusar.
Það kom vísindamönnum í opna skjöldu þegar þeir komust að því að tveir ytri hnettirnir gengju ekki í kringum miðbaug stjörnunnar heldur um póla hennar. Allar reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar ganga á svipuðu plani um miðbaug sólarinnar.
Nýlega tókst stjörnufræðingum að mæla braut innri reikistjörnunnar í fyrsta skipti. Þá kom í ljós að sporbraut hennar er hefðbundin. Hún gengur í kringum miðbaug HD 3167 en hornrétt á braut hinna reikistjarnanna tveggja.
Ekki er óheyrt að reikistjörnur gangi í kringum póla stjarna en ekki er vitað um nokkuð annað sólkerfi sem líkist þessu þar sem reikistjörnunar ganga þvers og kress í kringum stjörnu, að sögn New York Times.
Shweta Dalal frá Exeter-háskóla á Englandi segir að óþekkt fyrirbæri í ystu afkimum HD 3167-sólkerfisins kunni að valda þessari óvenjulegu uppröðun reikistjarnanna. Vísbendingar séu um að reikistjarnan á stærð við Júpíter sé á braut um stjörnuna. Þyngdarkraftur hennar gæti verið nægilegur til að hafa ýtt ytri reikistjörnunum inn á furðulega sporbraut sína. Innsta reikistjarnan sé á hefðbundinni sporbraut þar sem hún sé næst stjörnunni.
Júpíter er langstærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar en allar hinar reikistjörnunnar kæmust fyrir inni í honum saman. Hann hefur þó ekki raskað sporbrautum hinna reikistjarnanna á sama hátt og í HD 3167 þar sem mun lengra er á milli þeirra en á milli reikistjarnanna sólkerfinu óvanalega.
Þannig eru sporbrautir allra reikistjarnanna þriggja við HD 3167 á sporbraut sem liggur nær stjörnunni en sporbraut Merkúríusar, innstu reikistjörnunnar í sólkerfinu okkar, er sólinni.