Fótbolti

Ætlar að sniðganga blaðamannafundi Mourinho

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, brást illa við spurningu fjölmiðlamanns ítölsku útvarpsstöðvarinnar Retesport síðastliðinn laugardag.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, brást illa við spurningu fjölmiðlamanns ítölsku útvarpsstöðvarinnar Retesport síðastliðinn laugardag. Fabio Rossi/AS Roma via Getty Images

Ítalska útvarpsstöðin Retesport mun ekki senda fleiri fulltrúa á blaðamannafundi knattspyrnustjórans José Mourinho, eftir að sá portúgalski móðgaði starfsmann þeirra og sagði hann ekki vera mjög gáfaðan.

Mourinho tók við sem knattspyrnustjóri Roma í byrjun maí á þessu ári. Gengi liðsins var gott til að byrja með, en upp á síðkastið hafa úrslitin hins vegar ekki verið að falla með þeim.

Roma hefur aðeins unnið einn af seinustu sjö leikjum sínum, og eins og þeir sem þekkja til Mourinho vita, þá á hann það til að láta slæmt gengi fara í taugarnar á sér og hefur stundum tekið pirring sinn út á öðrum en sjálfum sér.

Starfmaður Retesport, Marco Juric, spurði knattspyrnustjórann hvort að hann hefði viljað breyta einhverju af því sem hann hefði gert þessa sex mánuði sem hann hefur verið stjóri Roma.

„Þú ert hér á nánast hverjum einasta blaðamannafundi, og annaðhvort ertu mjög gáfaður en vilt að fólk haldi að þú sért það ekki, eða þá að þú ert alls ekki mjög gáfaður,“ svaraði Mourinho og stóð síðan upp og yfirgaf fundinn.

Retesport sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem kemur fram að útvarpsstöðin ætli að sýna Marco Juric samstöðu vegna óþægilegs og óviðeigandi svars frá Mourinho og hætta þátttöku á blaðamannafundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×