Fótbolti

Zlatan bjargaði stigi fyrir toppliðið með hjólhestaspyrnu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic skoraði glæsilegt mark í kvöld.
Zlatan Ibrahimovic skoraði glæsilegt mark í kvöld. Nicolò Campo/LightRocket via Getty Images

Zlatan Ibrahimovic bjargaði stigi fyrir AC Milan þegar hann jafnaði metin í 1-1 gegn Udinese í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í uppbótartíma.

Fyrra mark leiksins kom á 17. mínútu þegar Beto slapp einn í gegn fyrir heimamenn. Mike Maignan gerði vel í að verja frá Beto, en Fikayo Tomori náði ekki að hreinsa boltann frá marki og hann féll þá aftur fyrir Beto sem skoraði í annarri tilraun.

Gestirnir frá Mílanó reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en áttu í stökustu vandræðum með að koma sér í opin marktækifæri. Liðið átti til að mynda ekki skot á markið fyrr en að tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.

Það var svo ekki fyrr en á annarri mínútu uppbótartíma sem að gamli maðurinn Zlatan Ibrahimovic bjargaði stiginu fyrir AC Milan með glæsilegri hjólhestaspyrnu.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma urðu svo læti sem enduðu með því að Isaac Success lét reka sig af velli með beint rautt spjald og heimamenn þurftu því að leika seinustu mínúturnar manni færri.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli, en AC Milan situr í það minnsta enn á toppi deildarinnar með 39 stig eftir 17 leiki, tveimur stigum meira en nágrannar sínir í Inter sem eiga leik til góða. Udinese situr hins vegar í 15. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×