Hækkandi matvælaverð hefur víða verið einn þeirra þátta sem valdið hefur verðbólgu að undanförnu á sama tíma og mörg ríki reyna að koma efnahagsmálum aftur í fyrra horf.
Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ varar nú við því að hækkandi matvælakostnaður muni bitna sérstaklega á fátækasta hópi samfélagsins í ríkjum sem stóli mikið á innflutt matvæli, sem Ísland til dæmis gerir.
Jurtaolíur hafa hækkað mest í verði, eða um 4,2 prósent á einum mánuði, frá því í desember 2021. Rekja má þessa hækkun að miklu leiti til raskana á flutningaleiðum, skorts á vinnuafli og óhentugs veðurfars.
Þá hefur mjólkurverð hækkað um 2,4 prósent, en mjólkurverð hefur hækkað undanfarna fimm mánuði, og mest hækkun er á verði á mjólkurdufti og smjöri.
Minnst hækkun er í flokki korna, en verð þeirra hækkar um 0,1 prósent, þó sum hækki meiri en önnur. Til að mynda hefur maísverð hækkað um 3,8 prósent frá því í desember. Það má rekja til uppskerubrests vegna þurrka í Suður-Ameríku.
Hveiti lækkar þó í verði, um 3,1 prósent, þar sem gríðarleg hveitiuppskera var í Ástralíu og Argentínu. Verð á kjöti hefur sömuleiðis hækkað en sykurverð lækkaði um 3,1 prósent á milli desember og janúar, að stórum hluta vegna góðrar sykuruppskeru í Indlandi og Taílandi.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að hækkunin væri á milli janúarmánaða 2021 og 2022 en hækkunin er á milli mánaðanna desember 2021 og janúar 2022. Þetta hefur nú verið leiðrétt.