Körfubolti

„Hann gæti verið stoð­sendinga­hæsti leik­maðurinn í þessari deild.“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ivan í leik gegn Stjörnunni.
Ivan í leik gegn Stjörnunni. Vísir/Bára Dröfn

Ivan Aurrecoechea Alcolado átti góðan leik er Grindavík lagði Tindastól í síðustu umferð Subway-deildar karla í körfubolta. Strákarnir í Körfuboltakvöldi eru þó á því að þessi 26 ára Spánverji gæti orðið enn betri ef hann breytir leik sínum örlítið.

„Ivan Aurrecoechea vill mjög mikið fá hann, sérstaklega á vinstri blokkinni (við körfuna). Hann vill fá hann með hægri höndina til að geta rekið öxlina aðeins í menn. Það er staðurinn sem Elbert Clark Matthews vill komast á því hann er með hann í vinstri hendinni og snýr á körfuna, þetta er akkúrat blokkin sem hann sækir á,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi. Hann hélt svo áfram.

„Ivan þvælist fyrir honum, við fórum vel yfir það. Svo er annað því Ivan tekur rosalega mikið til sín. Það er svo auðvelt að laga þetta, ef hann myndi kasta boltanum út úr teignum - því hann fær tvö- og þreföldun á sig reglulega – þá væri hann með 10 stoðsendingar í leik.“

„Þetta er svo gott þriggja stiga lið, ef eitthvað lið ætti að nýta þetta inn og út þá er það Grindavík. Það þarf að taka langan myndbandsfund og láta hann (Ivan) horfa á þetta,“ bætti Hermann Hauksson við.

Klippa: Telja að Ivan gæti verið stoðsendingahæstur í deildinni

„Þegar hann gerir þetta 2-3 í röð þá er gefið að liðin sem eru að dekka hann hætta að tvö- og þrefalda á hann,“ sagði Sævar Sævarsson áður en Hermann átti loka orðið.

„Hann gæti verið stoðsendingahæsti leikmaðurinn í þessari deild.“

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×