Skoðun

Sam­ræmd próf - hvað svo?

Ragnar Þór Pétursson skrifar

Samræmt námsmat á Íslandi rekur rætur sínar aftur til millistríðsáranna. Í fyrstu náði það aðeins til þriggja greina: skriftar, reiknings og stafsetningar. Á eftirstríðsárunum varð hugmyndafræðileg breyting á námsmati og grunn skólakerfið var í raun klofið í tvær rásir. Annarsvegar var þorra nemenda ætlað að þreyta gagnfræðapróf (sem eins og nafnið gefur til kynna átti að vera hagnýtt nám með samfélagslega skírskotun) og hinsvegar áttu þeir nemendur sem hneigðust til bóknáms möguleika á inngöngu í menntaskóla með því að þreyta landspróf. Landsprófin voru hugsuð sem jafnréttisaðgerð því þau áttu að tryggja að námsárangur einn (en ekki til dæmis félagslegur uppruni) réði inntöku í menntaskóla, sem gjarnan varðaði leiðina að völdum og embættum.

Á sjöunda áratugnum byrja byltingarhugmyndir að ólga í menntakerfum okkar heimshluta og fyrr er varði var hugmyndin um aðgreint menntakerfi til að þjóna elítunni, embættis- og valdamönnum, komin á höggstokkinn. Hér á landi birtist þetta meðal annars í því að landspróf og gagnfræðapróf fóru að nálgast mjög að inntaki. Breytingin var geirnegld í metnaðarfullri löggjöf rétt fyrir miðjan áttunda áratuginn þar sem kveðið var á um eitt menntakerfi fyrir öll börn. Árið 1976 voru samræmd próf tekin upp.

Samræmd próf hafa frá fyrsta degi verið dálítið vandræðabarn og í árlegum skýrslum frá yfirvöldum menntamála þurfti ævinlega að fylgja inngangur þar sem kveðið var á um að prófin mætti hvorki oftúlka né misskilja. Árangur af skólastarfi er ekkert einfalt mál því bæði gæði skólastarfs og skaði verður fyrir margfeldisáhrifum marga áratugi eftir að skólagöngu lýkur. Undirstöðumenntun hefur áhrif á það hvernig við hugsum, hvað við segjum og hvernig við vinnum úr nýrri reynslu og upplýsingum. Hún getur haft áhrif á það hvort við erum skapandi eða þröngsýn; opin eða tortryggin; andaktug eða kaldlynd. Góð menntun hefur áhrif á samfélagið til góðs. Þar skiptir svo ótalmargt máli annað en það sem nærtækast eða auðveldast er að mæla.

Nú hafa samræmd próf lokið göngu sinni. Ég fagna því. Það er metnaðarfyllri ákvörðun en ég held að flest átti sig á. Ég vil sérstaklega þakka eftirfarandi einstaklingum: Svanhildi Kr. Sverrisdóttur, Margréti Harðardóttur, Þórði Kristjánssyni, Helga Arnarsyni, Brynhildi Sigurðardóttur, Hjördísi Albertsdóttur, Þorvari Hafsteinssyni, Eðvald Einari Stefánssyni og Sverri Óskarssyni.

Ofangreint fólk stýrði af mikilli fagmennsku vinnu þar sem samhengi námsmats og þróttmikils skólastarfs var skoðað ofan í kjölinn og lagði fram tillögur að framtíðarstefnu (sjá hér) um fyrirkomulag opinbers námsmats.

Ég vil líka þakka Lilju Dögg Alfreðsdóttur fyrir að setja þessi mál á dagskrá og finna þeim faglegan farveg og Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að fylgja þeim eftir. Loks þakka ég Arnóri Guðmundssyni fráfarandi forstjóra Menntamálastofnunar fyrir einkar gott samstarf um mörg grundvallaratriði íslensks skólastarfs á síðustu árum. Hann snýr nú til annarra starfa og ég óska honum velfarnaðar.

Það segir sig sjálft að kerfi, sem breyst hefur aðeins tvisvar í grundvallaratriðum frá því það var sett á stofn fyrir tæpri öld, er kerfi tregðu. Eina leiðin til að breyta slíkum kerfum er að hafa skýrar faglegar og samfélagslegar forsendur fyrir breytingum og nógu stóran hóp sem er tilbúinn að taka þátt. Þær aðstæður eru einmitt uppi í skólakerfinu okkar í dag. Hópurinn sem ég nefndi hér að framan nýtur þess að vinna í umboði þúsunda kennara og annarra haghafa sem kallað hafa eftir breytingum. Menntakerfið er tilbúið til að endurskapa sig að þessu leyti - eins og það hefur endurskapað sig að mörgu öðru leyti síðan um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Tímar breytinga eru tímar áhættu. Nú þarf að fylgja breytingunum eftir af fagmennsku og við megum ekki líða neitt hálfkák í þeim efnum. Kennarar verða að taka virkan þátt í að móta þær lausnir og þau verkfæri sem leysa eiga af hólmi samræmd próf. Nú hefst vinnan fyrir alvöru og ef henni er ekki sinnt vel getur útkoman orðið mun verra kerfi en það sem verið er að leysa af hólmi.

Ég skora á yfirvöld og allt skólafólk að gefa sig að þessu verkefni með þeim sóma sem það verðskuldar því áhrifin munu, eins og áhrifin af öllu námi, vara í áratugi.

Höfundur er formaður Kennarasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×